Lýðræði

Hafðu áhrif – taktu þátt

19. janúar 2026

Samband íslenskra sveitarfélaga og innviðaráðuneytið hafa hrundið af stað átaki sem miðar að því að auka þátttöku almennings um land allt í sveitarstjórnarkosningum vorið 2026 og styrkja lýðræðislega þátttöku á sveitarstjórnarstiginu.

Átakinu er hvort tveggja ætlað að hvetja fólk til að bjóða sig fram og hafa áhrif með því að kjósa í kosningunum. Sérstök áhersla verður lögð á hópa sem hingað til hafa tekið síður þátt. Samkomulag um átakið var undirritað í dag á grundvelli aðgerðar 8 í stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024-2028, sem hefur það að markmiði að stuðla að aukinni kosningaþátttöku og almennri lýðræðisþátttöku íbúa.

Hvatning til framboða og aukin vitund um sveitarstjórnarstigið

Í fyrri hluta átaksins verður lögð sérstök áhersla á að fá fjölbreyttan hóp einstaklinga til að bjóða sig fram til sveitarstjórna. Markmiðið er tvíþætt:

  • Hvetja nýtt fólk til þátttöku í stjórnmálum á sveitarstjórnarstigi, með áherslu á að virkja einstaklinga sem hingað til hafa ekki tekið virkan þátt.
  • Stuðla að framhaldi þátttöku núverandi kjörinna fulltrúa, þannig að þekking og reynsla haldist innan sveitarstjórna.

Jafnframt verður unnið markvisst að því að auka umræðu og vitund almennings um sveitarstjórnarstigið, hlutverk sveitarstjórnarfulltrúa og mikilvægi þess að hafa virka og fjölbreytta þátttakendur í lýðræðislegum ákvörðunum. Áhersla verður lögð á að ná til þeirra hópa sem hafa minnst tekið þátt í sveitarstjórnarmálum hingað til.

Aukning kosningaþátttöku um land allt

Í síðari hluta átaksins verður sjónum beint að því að hvetja almenning til að kjósa í sveitarstjórnarkosningunum sem haldnar verða laugardaginn 16. maí nk. Haldið verður áfram að fræða fólk um hlutverk sveitarstjórna, en nú með áherslu á rétt og skyldu íbúa til að nýta atkvæðisrétt sinn.

Sérstaklega verður dregið fram hvers vegna það skiptir máli að kjósa. Sveitarstjórnarstigið sinnir margvíslegri nærþjónustu sem hefur bein áhrif á daglegt líf íbúa – frá skipulagsmálum og grunnþjónustu til leik- og grunnskóla, velferðarþjónustu og félagslegra úrræða. Með því að nýta kosningarétt sinn fá íbúar tækifæri til að hafa áhrif á samfélag sitt, hvernig það þróast og hverjir taka ákvarðanir um þau málefni sem snerta þá helst.

Í þessum áfanga verður sérstök áhersla lögð á að virkja þá hópa sem hafa sýnt minnsta kosningaþátttöku, þar á meðal:

  • ungt fólk,
  • innflytjendur,
  • aðra íbúahópa sem hafa ekki nýtt kosningarétt sinn í sama mæli og aðrir.

Hægt er að kynna sér ítarefni um kosningarnar hér.