100% árangur Íslands í European City Facility!

Tvö sveitarfélög, Akureyrarbær og Múlaþing, voru nýlega valin til að hljóta styrk og faglega aðstoð vegna vinnu við gerð fjárfestingaáætlana vegna orkuskiptanna. Er styrkurinn veittur í gegnum verkefnið  European City Facility.

Gaman er að segja frá því að tvær umsóknir bárust frá Íslandi og fengu þær báðar brautargengi. Næst verður auglýst eftir umsóknum í október næstkomandi og verður það í seinasta skipti sem íslensk sveitarfélög geta sótt stuðning í þetta verkefni. Við hvetjum sem flest til að kynna sér tímanlega þau tækifæri sem þar eru í boði.

Verkefni Akureyrarbæjar snýst um að gera fjárfestingaráætlun fyrir lífgasver sem fyrirhugað er að rísi á Líforkugörðum í Dysnesi við Eyjafjörð. Félagið Líforkuver ehf, Eimur og Vistorka hafa unnið að undirbúningi verkefnisins og verður fjárfestingaráætlunin unnin í samstarfi allra aðila.   

Hugmynd Múlaþings að fjárfestingarverkefni snýst um að koma fyrir varmadælu í miðlæga kyndistöð Seyðisfjarðar, sem sér um að hita upp meirihluta húsa bæjarins. Með því mun orkunotkun minnka töluvert, sem eykur rými til þess að endurnýja innviði kerfisins sem eru komnir á tíma. 

Sambandið óskar þeim sem að verkefnunum standa innilega til hamingju.