Í síðustu viku var efnt til vinnustofu á vegum Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV). Þar með hófst formlega vinna við að þróa gæðaviðmið í félagsþjónustu.
Vinnustofuna sóttu þátttakendur víða af á landinu. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið veitti GEV sérstakt fjármagn fyrr á árinu vegna gæðaviðmiðanna og verða þau unnin á grundvelli bestu mögulegrar þekkingar og í samvinnu við hagaðila.
Af hverju gæðaviðmið?
Í lögum um GEV fer stofnunin með eftirlit með gæðum þjónustu sem veitt er á grundvelli fjölmargra laga. Til að tryggja gott og markvisst eftirlit með gæðum velferðarþjónustu er nauðsynlegt að til staðar séu gæðaviðmið. Í áðurnefndum lögum er því einnig ákvæði um að GEV skuli þróa slík viðmið á grundvelli bestu mögulegrar þekkingar á málaflokkum á verkefnasviði stofnunarinnar. Það er sú vinna sem nú stendur yfir og er ráðgert að gæðaviðmiðin verði tilbúin um mitt næsta ár.
Gæðaviðmiðin eru hugsuð til leiðsagnar fyrir þau sem veita fólki félagslega þjónustu og gagnast eftirlitsaðilum, þjónustuveitendum og notendum þjónustunnar við að meta framkvæmd hennar.
Markmiðið með notkun viðmiðanna er að fylgjast með gæðum og öryggi þjónustunnar og stuðla að því að þeir meginþættir sem metnir eru séu sýnilegir þannig að notendur velferðarþjónustu, stjórnvöld, stjórnendur og starfsmenn geti metið gæði þjónustunnar og tekið ákvarðanir á faglegum og upplýstum grundvelli. Gæðaviðmiðin geta sagt til um það hvort þjónustan sé að skila því sem henni er ætlað að skila og jafnframt hvort þjónustan uppfylli væntingar notenda hennar.