Fræðslumál
Samstarfs- og nýsköpunarstyrkir til íslenskunáms innflytjenda
13. ágúst 2025
Mennta- og barnamálaráðherra auglýsir lausa til umsóknar styrki til að efla samstarf og nýsköpun í íslenskunámi innflytjenda. Úthlutað verður allt að 200 m.kr. í samstarfsverkefni sem ætlað er að ná til fjölbreyttra hópa innflytjenda með nýju námi, aðferðum eða verkfærum sem verða gerð aðgengileg. Gert er ráð fyrir samstarfi þvert á kerfi menntunar, atvinnulífs og/eða velferðar þar sem samstarfsaðilar geta verið skólar, fræðsluaðilar, sveitarfélög, samtök, félög, stofnanir/fyrirtæki eða sérfræðingar.

Styrkt verða samstarfsverkefni sem varða a.m.k. eitt af sex neðangreindum áherslusviðum. Þau verða að fela í sér nýjung, byggja á metinni þörf ásamt faglegri og rekstrarlegri getu eins umsóknaraðila sem jafnframt ber ábyrgð á verkefninu. Framkvæmdartími er 1-2 ár.
Umsóknir verða að tengjast a.m.k. einu af eftirfarandi áherslusviðum:
- Samstarf um íslenskustuðning í starfs-, iðn-, tækni- eða undirbúningsnámi/starfsþjálfun.
- Samstarf um innleiðingu aðferða og þekkingar til að undirbúa einstaklinga 16 ára og eldri fyrir frekara nám eða störf með áherslu á læsi, menningu og samskipti í íslensku samfélagi.
- Samstarf um stafræna miðlun og/eða einstaklingsmiðaðan námsstuðning við unga innflytjendur til að fjölga tækifærum þeirra til virkrar þátttöku eða rjúfa einangrun vegna skorts á íslenskukunnáttu.
- Samstarf um að auka vægi íslensku í daglegu lífi fullorðinna innflytjenda með sérstaka áherslu á þau sem vinna ein eða eru heimavinnandi til að efla félagsleg tengsl, bjargráð og samfélagslega þekkingu.
- Samstarf um íslenskunám fyrir foreldra barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi með það að markmiði að þau geti stutt börn sín í nýju málumhverfi og verið virkur hluti af því.
- Samstarf um íslenskunám starfsfólks með fjölbreyttan tungumála- eða menningarbakgrunn sem vinnur í skólum, í frístundastarfi eða við umönnun með sérstaka áherslu á uppeldi, menntun eða velferð.