Velferð
Samningur um víðtækt samstarf á sviði endurhæfingar og samhæfingu þjónustu undirritaður
7. nóvember 2024
Samningur sem kveður á um víðtækt samstarf á sviði endurhæfingar og samhæfingu þjónustunnar þvert á kerfi hefur verið undirritaður. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambandsins, undirritaði samninginn fyrir hönd Sambandsins.
Að samningnum koma 46 aðilar á sviði félags- og heilbrigðisþjónustu, sem skuldbinda sig til að eiga með sér samstarf og samvinnu um endurhæfingu einstaklinga sem á þurfa að halda. Samningurinn tekur gildi 1. september 2025 og er mikilvægur liður í innleiðingu viðamikilla breytinga á örorkulífeyriskerfinu samkvæmt lögum sem öðlast gildi á sama tíma.
Samningurinn og helstu markmið hans
Aðilar að samningnum eru Tryggingastofnun, Vinnumálastofnun, VIRK Starfsendurhæfingarsjóður, sveitarfélögin og veitendur heilsugæsluþjónustu og félagsþjónustu um allt land. Saman mynda þessir aðilar kerfisbundna heild um veitingu endurhæfingarþjónustu á landsvísu. Helstu markmið samningsins eru:
- Að ná fram heildstæðri nálgun við endurhæfingu einstaklinga og samfellu í allri þjónustu.
- Að undirbúningur að endurkomu á vinnumarkað hefjist eins fljótt og hægt er þegar heilsubrests verður vart, með snemmtækri íhlutun.
- Að einstaklingum sé fylgt eftir milli þjónustukerfa þurfi þeir þjónustu fleiri en eins kerfis, ljóst sé hvernig ábyrgðin færist á milli þeirra og að hlutverk hvers þjónustuveitanda sé skýrt.
- Að miðlun upplýsinga verði stafræn og fari fram í gegnum örugga þjónustugátt milli þeirra sem veita þjónustuna til aukins hagræðis fyrir notendur þjónustunnar.
Nánari upplýsingar:
Upplýsingasíða TR um breytingar á örorku- og endurhæfingarkerfinu
Öll með: Upplýsingasíða félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins