Evrópusamvinna
Samkeppnishæfni og öryggismál á fundi Sveitarstjórnarvettvangs EFTA
11. desember 2025
Sveitarstjórnarvettvangur EFTA kom saman í Brussel dagana 17.-18. nóvember 2025. Að þessu sinni var samkeppnishæfni og öryggismál í Evrópu megin umfjöllunarefni vettvangsins.

Á fundinum var fjallað um öryggismál í Evrópu og fyrirhugaða endurskoðun á almannavarnakerfi ESB. Endurskoðunin miðar meðal annars að því að styrkja samstarf um almannavarnir milli ESB-ríkjanna auk 10 annarra Evrópuríkja, þar á meðal EES EFTA ríkjanna þriggja. Fulltrúar í vinnuhópi EFTA á sviði almannavarna tók þátt í þessum hluta fundarins. Í umræðum í tengslum við ályktun fundarins koma meðal annars fram að EES EFTA ríkin telji það tímabært að endurskoða almannavarnakerfi álfunnar og að sérstaklega þurfi að efla viðbúnað í tengslum við heilbrigðis-neyðarástand í líkingu við það sem kom upp í Covid faraldrinum.
Á fundinum var einnig fjallað um samkeppnishæfni Evrópu og með hvaða hætti sé hægt að stuðla að því að menntun og starfsþjálfun tryggi sem besta samkeppnishæfni álfunnar. Í umræðu um ályktun fundarins kom meðal annars fram að EES EFTA ríkin búi yfir ríkri hefð í tengslum við fullorðinsfræðslu, þau búi yfir öflugu vinnustaðanámi og þá séu þau framarlega þegar kemur að stafrænni umbreytingu.
Sveitarstjórnarvettvangur EFTA
Sveitarstjórnarvettvangur EFTA tók til starfa árið 2010 og er hlutverk hans að gæta hagsmuna sveitarstjórna aðildarríkja EFTA gagnvart ESB. Í honum eiga sæti sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Íslandi og Noregi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.
Fulltrúar Íslands á fundi Sveitarstjórnarvettvangs EFTA 17.-18. nóvember 2025
- Helga Þórðardóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík
- Anton Kári Haraldsson, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga
- Lára Halldóra Eiríksdóttir, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra
- Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum