Sameinað sveitarfélag mun heita Vesturbyggð

Á 2. fundi bæjar­stjórnar sameinaðs sveit­ar­fé­lags Tálkna­fjarð­ar­hrepps og Vest­ur­byggðar þann 19. júní 2024 var samþykkt að sveit­ar­fé­lagið skuli heita Vest­ur­byggð.

Undirbúningsstjórn um sameiningu sveitarfélaganna samþykkti síðastliðinn vetur að kallað yrði eftir tillögum frá íbúum um nafn á nýtt sveitarfélag. Af þeim yrðu valdar nokkrar tillögur og þær sendar til örnefnanefndar til umsagnar. Í kjölfarið myndi ný bæjarstjórn vinna málið áfram.

Alls bárust 111 tillögur að 48 nöfnum. Nafnið Vesturbyggð var oftast lagt til, það er 53 sinnum, Tálknabyggð þar á eftir sex sinnum og Látrabyggð fjórum sinnum. Öll önnur nöfn voru aðeins lögð til til einu sinni eða tvisvar sinnum.

Örnefnanefnd mælti með sjö nöfnum:

 • Barðsbyggð
 • Kópsbyggð
 • Látrabyggð
 • Látrabjargsbyggð
 • Suðurfjarðabyggð
 • Tálknabyggð
 • Vesturbyggð

Bæjarstjórn nýs sveitarfélags lagði umsögnina fyrir á fyrsta fundi sínum þar sem lagt var til að unnin yrði skoðanakönnun meðal íbúa um nafn á nýtt sveitarfélag þar sem kosið yrði á milli nafnanna sem Örnefnanefnd mælti með að undanskildu nafninu Látrabjargsbyggð.

Könnunin stóð yfir dagana 11.-17. júní og tóku 347 íbúar þátt. Niðurstöður könnunarinnar voru:

 • Vesturbyggð, atkvæði 314, hlutfall 90,5%
 • Suðurfjarðabyggð, atkvæði 19, hlutfall 5,5%
 • Tálknabyggð, atkvæði 7, hlutfall 2,0%
 • Látrabyggð, atkvæði 4, hlutfall 1,2%
 • Barðsbyggð, atkvæði 2, hlutfall 0,6%
 • Kópsbyggð, atkvæði 1, hlutfall 0,3%

Á 2. fundi bæjarstjórnar var samþykkt í ljósi fyrrgreindra gagna að nýtt sameinað sveitarfélag hljóti nafnið Vesturbyggð.