Umhverfis Ísland
Norðurslóðaáætlunin auglýsir eftir umsóknum um styrki
9. október 2025
Norðurslóðaáætlunin opnar fyrir styrkumsóknir vegna samstarfsverkefna, sér í lagi verkefna sem snúa að aðlögun að loftslagsbreytingum, verndun náttúru og líffræðilegrar fjölbreytni og orkuskiptum.
Byggðastofnun vekur athygli á að nú hefur verið opnað fyrir umsóknir fyrir styrkjum vegna samstarfsverkefna sem ætlað er að styrkja samstarf sveitarfélaga samhliða því að auka þekkingu og færni meðal þátttökulanda. Styrkirnir eru veittir af Norðurslóðaáætluninni (Northern Periphery and Arctic - NPA) og eru frekari upplýsingar um hana að finna á vef Byggðastofnunar. Þetta árið er lögð sérstök áhersla á eftirfarandi viðfangsefni:
- Að styrkja seiglu samfélaga á norðurslóðum og gera þau meira aðlaðandi í gegnum nýsköpun.
- Að styrkja aðlögunarhæfni samfélaga vegna loftslagsbreytinga og sjálfbærni í auðlindanýtingu.
- Að styrkja stofnanir samfélaga á norðurslóðum til að nýta samstarfstækifæri.
Aðlögun að loftslagsbreytingum og áhættustjórnun, verndun náttúru og líffræðilegrar fjölbreytni og lausnir sem flýta fyrir orkuskiptum sem henta á norðlægum slóðum fá sérstakt vægi hjá matsnefnd. Hægt er að sækja um styrki vegna smærri og stærri samstarfsverkefna en hægt er að sjá auglýsinguna á vef Interreg.
Sambandið hvetur sveitarfélög til að kynna sér þessi spennandi tækifæri og að snúa sér til tengiliðs NPA áætlunarinnar á Íslandi en hann veitir ráðgjöf og upplýsingar auk þess að aðstoða við að finna samstarfsaðila í þeim löndum sem eru aðilar að áætluninni: Reinhard Reynisson, sími 455 5400, netfang reinhard@byggdastofnun.is