Samráðsgátt
Frumvarp um stofnun innviðafélags sett í samráð
29. janúar 2026
Stjórnvöld hafa sett í samráðsgátt drög að frumvarpi um stofnun sérstaks innviðafélags sem ætlað er að annast fjármögnun og uppbyggingu mikilvægra samgöngumannvirkja.

Gert er ráð fyrir að félagið haldi utan um fjármögnun og framkvæmd verkefna á borð við jarðgangagerð og aðrar viðamiklar samgönguframkvæmdir, í samræmi við samgönguáætlun. Miðað er við að innviðaráðherra muni, með heimild í áformuðum lögum, gera samninga við félagið um uppbyggingu og rekstur einstakra verkefna.
Samkvæmt frumvarpinu verður félagið í eigu ríkissjóðs og starfar á faglegum og viðskiptalegum grunni. Fjármögnun verkefna mun meðal annars byggjast á tekjum, svo sem veggjöldum, eða eftir atvikum framlögum frá ríkinu, með það að markmiði að tryggja fjárhagslega sjálfbærni.
Hægt er að senda umsagnir um drögin í samráðsgátt til 9. febrúar næstkomandi.