Íslendingar losa sig við 10 tonn af textíl á dag. Gæði textíls fara dvínandi og aðeins lítill hluti af textílúrgangi fer í endurnotkun innanlands.

Samband íslenskra sveitarfélaga, í samstarfi við Umhverfis- og orkustofnun, hefur farið af stað með vitundarvakningu til að vekja athygli á miklu magni og þungum kostnaði sem fylgir meðhöndlun á textílúrgangi.
Markmið herferðarinnar er að hvetja fólk til að:
- Kaupa minna
- Nýta betur þann textíl sem það á
Ábyrgð og kostnaður sveitarfélaganna
Frá árinu 2023 hafa sveitarfélög borið ábyrgð á því að safna fötum, skóm og öðrum textíl sem íbúar losa sig við. Söfnun, flutningur og önnur meðhöndlun á þessum úrgangi hefur reynst sveitarfélögum afar íþyngjandi og kostnaðarsöm, sérstaklega þegar eftirspurn eftir notuðum fatnaði er lítil. Aðeins um 5-10% af söfnuðum textíl fer í endurnotkun innanlands. Restin er send úr landi í endurnotkun, endurvinnslu eða annan endurnýtingarfarveg, eins og brennslu til orkuframleiðslu.
Flokkum vel og minnkum neyslu
Samband íslenskra sveitarfélaga og Saman gegn sóun undirstrika mikilvægi þess að halda áfram að flokka textíl rétt. Endurnotkun, endurvinnsla og önnur endurnýting á textíl er mun skárri leið fyrir umhverfið en að urða hann. Við getum verið hluti af lausninni með því að draga úr óþarfa neyslu og auka líftíma fatnaðar og textíls sem samræmist hringrásarhagkerfinu.
Vitundarvakningin verður í birtingu á helstu vef- og samfélagsmiðlum í nóvember en nánari upplýsingar má finna á lendingarsíðu átaksins.
