Fjármál
Sambandið tekur að sér söfnun fjárhagsáætlana og útkomuspá sveitarfélaga
3. desember 2025
Samband íslenskra sveitarfélaga mun taka að sér söfnun fjárhagsáætlana og útkomuspá sveitarfélaga. Markmiðið með breytingunni er að styðja sveitarfélög landsins enn frekar við að ná fjárhagslegum markmiðum sínum með aukinni sjálfvirknivæðingu, bættum gæðum gagna og auðveldari samanburði.

Samhliða hefur Sambandið, í samstarfi við Hagstofu Íslands, innviðaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið, unnið að endurhönnun Upplýsingaveitu sveitarfélaga til að auðvelda sveitarfélögum landsins enn frekar að skila fjárhagsupplýsingum. Upplýsingaveitan er sameiginlegur gagnagrunnur opinberra aðila sem inniheldur fjárhagsupplýsingar sveitarfélaga í samræmi við lög og reglur. Þar er meðal annars um að ræða gögn um rekstur, fjárhag, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga.
Helstu breytingar í endurhönnuninni:
- Aukin sjálfvirk gagnaskil og betri endurgjöf til sveitarfélaga.
- Hönnun mælaborða sem gera sveitarfélögum kleift að bera saman eigin rekstur og fjárhagsáætlanir við önnur sveitarfélög.
- Möguleiki á að skila gögnum í gegnum vefþjónustu eða áætlunarskjöl, t.d. Excel.
Samhliða þessu mun Sambandið einnig taka alfarið yfir rekstur og vistun Upplýsingaveitu sveitarfélaga. Jafnframt er unnið að heildarendurskoðun á regluverki um bókhald, framsetningu ársreikninga og fjárhagsáætlana til að tryggja gagnsæi, áreiðanleika og samræmda framsetningu gagna. Þátttaka starfsfólks sveitarfélaga í þessari vinnu hefur verið lykilatriði enda er þekking þeirra og reynsla ómetanleg í þessu endurmati og breytingum.