Stafræn vegferð
Ríki og sveitarfélög taka höndum saman um gagnaöflun og stafræna þróun í velferðarþjónustu
8. nóvember 2025
Félags- og húsnæðismálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga, fyrir hönd sveitarfélaga landsins, munu ráðast í samstarf um öflun og nýtingu gagna í velferðarþjónustu og stafræna þróun hins opinbera. Markmiðið er að taka saman upplýsingar frá ólíkum þjónustuaðilum og stofnunum þannig að yfirsýn fáist yfir aðstæður þeirra sem þurfa á þjónustu að halda og stuðlað sé að samfellu í þjónustunni.
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Jón Björn Hákonarson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, undirrituðu samkomulag þess efnis í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu í dag.
Komið verður á sameiginlegu skipulagi gagnamála, þar á meðal við öflun, geymslu, vinnslu og miðlun gagna sem tengjast félagslegri velferðarþjónustu. Áhersla verður lögð á uppbyggingu traustra gagnainnviða og að stafræn þróun hins opinbera miði að markvissri samhæfingu, samnýtingu og hagnýtingu gagna.
Með samstarfinu skapast tækifæri til að nýta miðlægt lykilgögn sem gefa heildarsýn yfir velferðarþjónustu á Íslandi og gera stjórnvöldum kleift að útfæra markvissar aðgerðir og fjárfestingar. Verkefnið er mikilvægt skref í átt að gagnadrifinni nálgun og stafrænni þróun hins opinbera.
„Við hjá Sambandinu höfum lagt mikla áherslu á stafræn mál og þetta samkomulag er lykilskref í því verkefni að einfalda og bæta þjónustu við íbúa sveitarfélaga um allt land,“segir Jón Björn Hákonarson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. „Með samræmdri nálgun og öflugum stafrænum tólum getum við bæði aukið skilvirkni og tryggt að fjármunir séu nýttir á skynsamlegan hátt í þágu þeirra sem þurfa mest á þjónustu að halda.“
„Við þurfum gögn til að geta tekið réttar ákvarðanir og veitt bestu mögulegu þjónustu. Kerfin í dag tala ekki saman og enginn hefur til dæmis yfirsýn yfir það hversu margt fólk er á biðlista eftir dagdvöl eða búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk. Notandinn sjálfur hefur heldur ekki yfirsýn. Þessu viljum við breyta og ráðumst því núna í löngu tímabæra tiltekt. Loks erum við í sameiningu að móta framtíðarsýn um grunnskipulag gagna þannig að við getum tryggt samfellda þjónustu fyrir fólk og skynsamlega nýtingu fjármagns,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Verkefnið byggir meðal annars á ákvæðum samkomulags ríkis og sveitarfélaga frá 15. desember 2023. Þá verður horft til fordæma nágrannaríkja og unnar leiðbeiningar til sveitarfélaga um framkvæmd skráningar. Samhliða verða skoðaðir möguleikar á sameiginlegum innkaupum upplýsingatæknilausna til að ná fram hagkvæmni og skilvirkni.
Til að fylgja eftir samkomulaginu verður skipaður sérstakur stýrihópur sem mun vinna að samhæfingu stafrænna verkfæra, tæknilegra staðla og gagnainnviða. Verkefnið mun einnig ná til annarra ráðuneyta, háskóla, stofnana, frjálsra félagasamtaka og einkaaðila sem sinna velferðarþjónustu.