Stafræn vegferð

Mik­il tæki­færi í frekara sam­starfi í staf­ræn­um mál­um

21. nóvember 2025

Samband íslenskra sveitarfélaga fékk KPMG til að vinna skýrslu fyrir hönd allra sveitarfélaga þar sem fjallað er um kostnað og hagræðingartækifæri í rekstri og þróun stafrænna innviða hjá hinu opinbera. Niðurstöður skýrslunnar sýna að veruleg tækifæri felast í að efla samstarf ríkis og sveitarfélaga.

Í skýrslunni kemur fram að dreifing verkefna og ábyrgðar komi fram í sóun og tefji framþróun. Til að nýta fjármagn og þekkingu enn betur þarf að hugsa stafræna vegferð hins opinbera heildstætt, samþætta kerfi og brjóta niður hindranir milli stofnana og stjórnsýslustiga. Með sameiginlegri sýn, aukinni áherslu á notendaupplifun og samræmdar lausnir skapast tækifæri til að bæta þjónustu, draga úr tvíverknaði og ná stærðarhagkvæmni.

Áætlað er að hið opinbera hafi varið að minnsta kosti 42,6 milljörðum króna árið 2024 í rekstur og þróun upplýsingatækniinnviða. Talan er þó varlega áætluð þar sem skortur er á samræmdum reglum um bókhald og skráningu kostnaðar.

„Við verðum að horfa á stafræna þróun sem sameiginlegt verkefni allra opinberra aðila,“ segir Jón Björn Hákonarson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. „Það þýðir betri yfirsýn á verkefnum, betri þjónusta við íbúa og síðast en ekki síst mun betri nýting fjármagns. Fyrir íbúa skiptir ekki máli hvort sveitarfélag eða ríki er að veita þjónustuna, hún þarf bara að virka og vera aðgengileg.“

Skýrsluna má nálgast hér.