Sambandið

Elín Páls­dótt­ir lát­in

18. ágúst 2025

Elín Pálsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, og handhafi heiðursmerkis Sambands íslenskra sveitarfélaga er látin.

Skúli Þórðarson, þáverandi sveitarstjóri Húnaþings vestra, og Elín Pálsdóttir á landsþingi Sambandsins á Akureyri árið 2014.
Skúli Þórðarson, þáverandi sveitarstjóri Húnaþings vestra, og Elín Pálsdóttir á landsþingi Sambandsins á Akureyri árið 2014.

Elín er fyrsta konan sem hlotið hefur heiðursmerki Sambandsins en Halldór Halldórsson, þáverandi formaður, sæmdi Elínu heiðursmerkinu á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga við starfslok hennar árið 2016.

Við það tilefni rifaði Hallór upp að þegar regluverki Jöfnunarsjóðs var breytt árið 1990 og jöfnunarhlutverk hans aukið hefði verið ákveðið að ráða starfsmann í fullt starf til að sinna verkefnum sjóðsins. Halldór sagði samskiptin við Elínu ávallt hafa verið með miklum ágætum. ,,Elín hefur á þessum 27 árum haft hagsmuni sveitarfélaganna að leiðarljósi, en um leið gætt að hag Jöfnunarsjóðsins, sem hefur staðið vel á starfstíma hennar hjá sjóðnum. Elín er búin ríkri réttlætiskennd og mikilli staðfestu – eiginleikum sem hafa gagnast vel í öllum samskiptum hennar við sveitarstjórnarmenn og ekki síður við þá ráðherra sem hafa farið með málefni Jöfnunarsjóðsins á hverjum tíma frá árinu 1990,“ sagði Halldór.

Stjórn og starfsfólk Sambandsins senda börnum Elínar og fjölskyldum þeirra, sem og samstarfsfólki hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga samúðarkveðjur.