Ýmislegt um vatn og veitur
Vatnaáætlun Íslands 2022–2027 er fyrsta heildstæða áætlunin sem unnin hefur verið um vernd og sjálfbæra nýtingu vatnsauðlinda landsins. Hún byggir á lögum um stjórn vatnamála nr. 36/2011 og felur í sér stefnumótun stjórnvalda í vatnamálum, ásamt aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun sem gilda í sex ár í senn. Markmið hennar er að tryggja gott ástand vatns, vernda vistkerfi og stuðla að sjálfbærri nýtingu vatns til framtíðar.
Sveitarfélög gegna lykilhlutverki í framkvæmd vatnaáætlunar. Þau bera ábyrgð á ýmsum þáttum sem snúa að fráveitu, skipulagsmálum og umhverfisvernd, og þurfa að tryggja að starfsemi þeirra og áætlanagerð samræmist markmiðum vatnaáætlunar og skal samræma skipulagsáætlanir vatnaáætlun innan sex ára frá staðfestingu vatnaáætlunar. Ein sú aðgerð á grundvelli vatnaáætlunnar sem helst snertir sveitarfélögin snýr að fráveitumálum og að innleiða þurfi að fullu ákvæði reglugerðar um fráveitur og skólp og verða aðgerðir í fráveitumálum umfangsmestu aðgerðirnar við innleiðingu fyrstu vatnaáætlunarinnar.
Þetta felur meðal annars í sér aðgerðir til að draga úr mengun og bæta vatnsgæði, auk þátttöku í samráðsferlum og upplýsingagjöf til íbúa.
ICEWATER – Samstarfsverkefni um vatnsgæði
Til að styðja við innleiðingu vatnaáætlunarinnar tekur Ísland þátt í LIFE ICEWATER verkefninu, sem hlaut 3,5 milljarða króna styrk úr LIFE áætlun Evrópusambandsins. Verkefnið er leitt af Umhverfisstofnun og nær yfir tímabilið 2025–2030. Markmið þess er að bæta vatnsgæði, samhæfa stjórnsýslu í vatnamálum og efla fræðslu og vitundarvakningu um mikilvægi vatns.
Samband íslenskra sveitarfélaga er meðal 22 samstarfsaðila í verkefninu og styður sveitarfélög í að uppfylla skyldur sínar samkvæmt vatnaáætluninni. Með þátttöku í ICEWATER stuðlar Sambandið að aukinni samvinnu, miðlun þekkingar og þróun lausna sem nýtast sveitarfélögum um allt land við að vernda og bæta vatnsgæði.
Vatnsveitur og hlutverk sveitarfélaga
Vatnsveitur eru meðal mikilvægustu innviða samfélagsins og gegna lykilhlutverki í að tryggja heilnæmt neysluvatn fyrir íbúa og atvinnulíf. Íslendingar búa að einstökum vatnsauðlindum og um 97% af neysluvatni til almennings kemur frá grunnvatni sem ekki er þörf á að meðhöndla sérstaklega.
Samkvæmt lögum nr. 32/2004 um vatnsveitur sveitarfélaga ber sveitarfélögum að starfrækja vatnsveitur í þéttbýli í þeim tilgangi að fullnægja vatnsþörf almennings, heimila og atvinnufyrirtækja. Í dreifbýli er sveitarstjórn heimilt að leggja og reka vatnsveitu ef það telst hagkvæmt.
Hitaveitur og hlutverk sveitarfélaga
Hitaveitur gegna lykilhlutverki í orkunýtingu og húshitun á Íslandi. Um 90% landsmanna njóta húshitunar með heitu vatni úr jarðhita, sem gerir hitaveitukerfið að einu því umhverfisvænasta í heiminum.
Sveitarfélög bera víðtæka ábyrgð á rekstri og þróun hitaveitna, hvort sem um er að ræða eigin rekstur eða samstarf við opinbera eða einkaaðila. Í mörgum tilvikum eru hitaveitur í eigu sveitarfélaga og starfa samkvæmt einkaleyfi sem veitt er af ráðherra skv. orkulögum nr. 58/1967. Slíkar veitur lúta sérstökum reglum sem kveða á um veitusvæði, gjaldskrár og tæknilega skilmála.