Hringrásarhagkerfið og úrgangsforvarnir
Hringrásarhagkerfi er efnahagslegt kerfi þar sem vöruhönnun, framleiðsla, dreifing, neysla og meðhöndlun úrgangs mynda því sem næst lokaða auðlindahringrás. Sveitarfélög eru í mikilvægri stöðu við að innleiða hringrásarhagkerfi hér á landi þar sem þau bera ábyrgð á að ákvarða meðhöndlun úrgangs og finna leiðir til að koma í veg fyrir að efni verði að úrgangi.
Sveitarfélög hafa ríka ábyrgð til að stuðla að úrgangsforvörnum innan sinna marka og geta beitt fjölbreyttum leiðum til að ná sínum markmiðum. Markmið og aðgerðir á sviði úrgangsforvarna skulu koma fram í svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs. Einnig skal þar koma fram lýsing á þeim aðgerðum sem þegar eru fyrir hendi til að lágmarka úrgang og mat á árangri þeirra.
Úrgangsforvarnir miða bæði að því að draga úr magni úrgangs og lágmarka skaðleg áhrif úrgangs. Við meðhöndlun úrgangs og setningu reglna um stjórnun og stefnu í úrgangsmálum á að forgangsraða eftir úrgangsþríhyrningnum. Samkvæmt honum eiga sveitarfélög að kappkosta við að úrgangsmeðhöndlun sé í efsta lagi hans og sem minnst endi í förgun.
Sveitarfélög geta stuðlað að úrgangsforvörnum með aðgerðum sem miða til dæmis að:
- Gerð upplýsingaefnis um úrgangsforvarnir og þátttöku í átaksverkefnum sem snúa að úrgangsforvörnum
- Stuðlað að minni matarsóun innan þeirra stofnana sem sveitarfélög reka
- Hvatt til hringrásar með því að styðja við skiptimarkaði með föt og hluti eða önnur verkefni sem styðja við hringrás hráefna
- Innkaupum á fjölnota vörum í stað einnota og kaupa notað efni í stað þess að kaupa nýtt. Vörur með umhverfisvottanir hafa einnig minni skaðleg áhrif á umhverfið
Ráðherra setur fram stefnu um úrgangsforvarnir sem gildir í 12 ár í senn og er nýrrar stefnu að vænta undir lok árs 2025. Umhverfis- og orkustofnun fer með umsjón stefnunnar sem ber heitið Saman gegn sóun og geta sveitarfélög nýtt sér efni undir formerkjum hennar hér.