Mikilvægasta auðlind hvers sveitarfélags er mannauður þess. Til að sveitarfélag geti veitt íbúum lögbundna þjónustu þarf það að hafa skýra mynd af því hvaða verk þarf að vinna, hvernig þau skuli innt af hendi og hver beri ábyrgð á framkvæmd þeirra. Þess vegna ber sveitarfélagið stjórnunarábyrgð sem felur í sér skyldu þess sem vinnuveitanda til að skipuleggja starfsemina, úthluta verkefnum og setja ramma um vinnu starfsfólks. Stjórnunararéttur opinberra vinnuveitenda er ekki óskilyrtur. Honum skal beitt á málefnalegan, gagnsæjan og hófstilltan hátt og alltaf í samræmi við lög, kjarasamninga og vandaða stjórnsýslu. 

Stjórnunarréttur sveitarfélags er viðkemur skipulagningu starfseminnar nær m.a. til þess að: 

  • skilgreina markmið, forgangsröðun og gæði þjónustu, setja verklagsreglur og mælikvarða; 
  • gera starfslýsingar er ákvarða hvaða verkefni skal vinna, hvernig og hvenær – þar með talið skipulag vinnutíma, vakta og útkalla innan lagaramma og kjarasamninga; 
  • ákveða starfshlutfall, vinnustað (t.d. staðbundið/fjar- eða blandað), tilfærslu milli verkefna og breytingar á starfslýsingu þegar hagsmunir þjónustunnar krefjast; 
  • krefjast tiltekinnar hæfni til starfs, veita leiðsögn og þjálfun, úthluta ábyrgð og gera kröfur um fagmennsku, framkomu og trúnað; 
  • fylgja eftir árangri og vinnubrögðum með skýrum leiðbeiningum, endurgjöf og formlegum viðbrögðum ef frávik verða. 

Á móti fylgja ríkar skyldur. Sveitarfélagið tryggir öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi, virðir jafnræði og bann við mismunun, verndar persónuupplýsingar og heiður starfsmanna og gætir meðalhófs við allar ákvarðanir. Breytingar starfa eru rökstuddar, tilkynntar með hæfilegum fyrirvara og unnar í samráði þar sem við á. Ágreiningur er leystur faglega, skráning er vönduð og starfsmenn njóta réttlátrar málsmeðferðar. 

Góð beiting stjórnunarréttar opinberra vinnuveitenda byggir á fjórum stoðum: 

  1. skýrum stefnum og hlutverkum, 
  2. fyrirsjáanlegu skipulagi og sanngjörnum væntingum, 
  3. reglulegri, uppbyggilegri endurgjöf, 
  4. trausti og virðingu í daglegu samstarfi. 

Þannig verður stjórnunarrétturinn ekki valdboð heldur þjónustutæki: leið til að tryggja að íbúar fái rétta þjónustu á réttum tíma, að starfsfólk viti til hvers er ætlast af því og hafi aðstæður til að skila góðu verki og að sveitarfélagið geti brugðist hratt og rétt við þegar þörf eða forgangsröðun breytist. Þetta er kjarni faglegrar stjórnar á vinnustöðum sveitarfélaga – skýr markmið, skýrar kröfur og traust samskipti.