Í samþykktum Sambands íslenska sveitarfélaga kemur fram að tilgangur þess sé m.a. að þjóna sveitarfélögum á sviði vinnumarkaðsmála, annast kjarasamningsgerð og hafa fyrirsvar í kjaramálum fyrir þau sveitarfélög sem veita umboð sitt til þess ásamt því að hafa frumkvæði að rannsóknum og sinna upplýsingagjöf, eftir því sem við á. Sambandið sinnir einnig ráðgjöf og veitir fræðslu um kjarasamninga og leiðbeinir um framkvæmd þeirra. 

Þá er Sambandið í samstarfi við sveitarfélög, ríki og samtök launafólks  um launa- og kjaramál sem og umbætur á vinnumarkaði.  

Stjórn Sambandsins skipar kjaramálanefnd, sem er stjórn og samninganefnd til ráðgjafar  í vinnumarkaðsmálum, kjarasamningagerð og við undirbúning kjarastefnu og samningsmarkmiða Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í nefndinni sitja fulltrúar úr stjórn Sambandsins og sérfræðingar í kjaramálum sveitarfélaga.  

Samband íslenskra sveitarfélaga er með samningsumboð fyrir öll sveitarfélög landsins þegar kemur að starfsfólki leik-, grunn- og tónlistarskóla. Sambandið semur einnig við önnur stéttarfélög fyrir hönd allra sveitarfélaga að Reykjavíkurborg undanskilinni.  

Kjarasamningar Sambandsins taka ekki til: 

  • Starfsfólks hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, jafnvel þótt þau séu að öllu leyti í eigu sveitarfélaga 
  • Starfsfólks stofnana sem að einhverju eða öllu leyti eru í eigu annarra en sveitarfélaga, þar á meðal sjálfseignarstofnana, jafnvel þótt þær séu einvörðungu reknar fyrir framlög frá sveitarfélögum 
  • Sveitarstjórnarfólks en samkvæmt 32. gr. sveitarstjórnarlaga er sveitarstjórn skylt að ákveða hæfilega þóknun til sveitarstjórnarfólks. Því er það sveitarstjórn sjálf sem ákveður þóknun til kjörinna fulltrúa, þ.e. bæði sveitarstjórnarfólks og nefndarfólks