Frá árinu 2021 hafa stýrihópar á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, SORPU bs., Sorpeyðingarstöðinni Kölku ásamt fleirum unnið að greiningum og hagkvæmni þess að byggja upp hátæknibrennslustöð á Íslandi. Slík brennsla myndi brenna úrgangi sem er hvorki hæfur til endurnotkunar né endurvinnslu og koma í stað urðunar og útflutnings á úrgangi. Sveitarfélögin bera ábyrgð á að ná settum markmiðum um samdrátt í urðun heimilisúrgangs en yfirlýst markmið stjórnvalda er að ná að hámarki 10% urðun þess úrgangs árið 2035.

Tvær skýrslur á vegum stýrihópanna hafa verið gefnar út þar sem skoðuð var hagkvæmni verkefnisins. Fyrri skýrslan sem kom út árið 2021 fjallaði almennt um umfang brennanlegs úrgangs og dró fram grunnupplýsingar um tæknilega útfærslu, helstu umhverfisþætti, hugsanlegar staðsetningar og helstu áhættuþætti. Árið 2024 kom svo seinni skýrslan út þar sem bornar voru saman tvær ólíkar útfærslur á uppbyggingu brennslugetu á Íslandi.

Skýrslurnar má nálgast hér:

Forverkefni um framtíðarlausn til meðhöndlunar brennanlegs úrgangs í stað urðunar (2021)

Forverkefni nr 2: Samanburður tveggja kosta um uppbyggingu hátæknibrennslu á Íslandi (2024)

Í bígerð er að stofna undirbúningsfélag um orkubrennslu en SORPA, Kalka og Sorpurðun Vesturlands leiða þá vinnu með stuðningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis. Á fjármálaráðstefnu Sambandsins í október 2025 fór Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri SORPU, yfir stöðu verkefnisins og hlutverk fyrirhugaðs undirbúningsfélags. Upptökuna af erindinu má nálgast hér.