Loftslagsmál sveitarfélaga
Sveitarfélög landsins eru í lykilstöðu til að stuðla að árangri í loftslagsmálum og á sama tíma auka velsæld og öryggi íbúa sinna. Loftslagsverkefnið er brýnt og það er tvíþætt: draga þarf úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðlagast þeim afleiðingum loftslagsbreytinga sem munu óhjákvæmilega skella á okkur. Sameiginlegur slagkraftur sveitarfélaga skiptir sköpum til að greiða fyrir þeim umskiptum sem þurfa að eiga sér stað til að markmiðum Parísarsamningsins verði náð, til að Ísland nái að standa við lögbundið markmið sitt um kolefnishlutleysi árið 2040 og til að fullnægjandi aðlögun íslensks samfélags að afleiðingum loftslagsbreytinga geti átt sér stað.
Sveitarfélögum ber skylda til að samþykkja loftslagsstefnu skv. lögum um loftslagsmál (70/2012) og hafa sveitarfélögin því í sífellt auknu mæli unnið að loftslagsmálum með beinum hætti.
Mörg vinna að því að takmarka losun vegna eigin reksturs og einhver ganga lengra og nýta skipulagsvald sitt til að draga úr samfélagslosun og losun vegna landnotkunar. Lykillinn að árangri er gott losunarbókhald sem sveitarfélög geta haldið ýmist í gegn um losunarreikni Loftslagsvænni sveitarfélaga eða með öðrum búnaði sem metur losun sjálfvirkt.
Verkfærakistu Loftslagsvænni sveitarfélaga er ætlað að efla og styðja íslensk sveitarfélög við að vinna aðgerðamiðaða loftslagsstefnu, fylgja henni eftir og vakta árangur sinn. Í verkfærakistunni er að finna ýmiss konar leiðbeiningar, sniðmát, önnur verkfæri og fróðleik sem gerir sveitarfélögum kleift að meta losun frá rekstri sínum og móta sér viðeigandi markmið og aðgerðir í loftslagsmálum sem eru grunnur fyrir árangursríka loftslagsstefnu. Verkfærakistan er í sameiginlegri umsjón Sambands íslenskra sveitarfélaga, Umhverfis- og orkustofnunar, og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.
Samdráttur í losun
Ýmis tækifæri eru til staðar þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og bæta samtímis lífsgæði íbúa og þurfum við að einbeita okkur að því að grípa þessi tækifæri á lofti. Dæmi um slík tækifæri eru bættar almenningssamgöngur og uppbygging göngu- og hjólastíga. Aðgerðir til að gera samgöngur innan sveitarfélaga loftslagsvænni eru einnig líklegar til að bæta loftgæði fyrir nærsamfélagið. Þannig geta mikilvægar loftslagsaðgerðir smitað út frá sér á jákvæðan hátt og stuðlað að bættri lýðheilsu og minna álagi á heilbrigðiskerfið.
Til að allt samfélagið njóti góðs af ávinningi loftslagsaðgerða þarf að huga að réttlætissjónarmiðum. Gæta þarf að því að aðgerðirnar komi ekki verr niður á tilteknum hópum og því þarf að tryggja gott samtal við nærsamfélagið við undirbúning og innleiðingu aðgerðanna.
Fyrsta skrefið til að ná samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda er að sveitarfélög setji sér aðgerðamiðaða loftslagsstefnu. Verkfærakistu sveitarfélaga í loftslagsmálum er ætlað að styðja íslensk sveitarfélög við að vinna slíka loftslagsstefnu, fylgja henni eftir og vakta árangur sinn.
Án virkrar þátttöku sveitarfélaga munu markmið og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum ekki nást. Það er því eitt af forgangsverkefnum Sambandsins að veita sveitarfélögunum aukinn stuðning við gerð þessara aðgerðamiðuðu loftslagsstefna þar sem þær eru ákveðin forsenda árangurs í loftslagsmálum auk þess að vera lögbundin skylda.
Aðlögun að loftslagsbreytingum
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur, fyrir hönd allra sveitarfélaga á Íslandi, skrifað undir sáttmála Evrópskra svæða um að vinna í sameiningu að aðlögun að loftslagsmálum. Sáttmálinn er grundvallaður í Leiðangri Horizon Europe um aðlögun að loftslagsbreytingum (Horizon Europe Mission - Adaptation to Climate Change: Challenges and opportunities for the regions and communities). Þátttaka í leiðangrinum veitir aðgang að margvíslegum upplýsingum, úrræðum og samstarfi á sviði aðlögunar.
Einnig hefur Sambandið fylgst vel með aðgerð C.10 í Byggðaáætlun um gerð áhættu- og viðkvæmnimats 5 ólíkra sveitarfélaga. Þetta prufuverkefni hefur gengið vel og mun reynslan nýtast vel við að aðstoða öll sveitarfélög landsins við að framkvæma slíkt áhættu- og viðkvæmnimat til að þau geti hafist handa við að aðlagast þeim staðbundnu hættum sem að þeim steðja vegna loftslagsbreytinga. Stuðningur við aðlögunarvinnu sveitarfélaga er raunar liður í aðgerðum sem Sambandið ber ábyrgð á í væntanlegri Aðlögunaráætlun Íslands og er samhliða verið að vinna að styrkumsókn í LIFE áætlun ESB til að fjármagna innleiðinguna.