Hlut­verk kjör­inna full­trúa

Sveitarstjórnarmenn hafa eingöngu vald á fundum. Því er mikilvægt að fundarboð, dagskrá og fundargögn séu vel útbúin svo sveitarstjórn geti sinnt starfi sínu með sóma. Þetta þýðir einnig að ekki er hægt að taka ákvarðanir utan formlegra funda svo sem með skriflegu samþykki allra eða staðfesta ákvarðanir í tölvupósti. 

Grundvallarverkefni sveitarstjórnarfólks eru:  

  • Að móta stefnu fyrir starfsemi og rekstri sveitarfélagsins og framþróun þess og hafa eftirlit með að henni sé fylgt  
  • Að forgangsraða ráðstöfun fjármuna og mannafla sveitarfélagsins,  
  • Að taka á álitaefnum sem koma upp og varða sveitarfélagið  
  • Að hafa samráð og skipuleggja ákvörðunarferla, þ. á m. þátttöku íbúa í ákvörðunartöku.  

Ólík hlutverk sveitastjórnarfólks og starfsfólks sveitarfélaga 

Góð samskipti og traust á milli sveitarstjórnar og stjórnsýslunnar er ein af meginforsendum fyrir árangursríku starfi sveitarstjórnar. Skýrar reglur um verkaskiptingu, stuðning stjórnsýslunnar við kjörna fulltrúa og málsmeðferð þegar þeir óska eftir upplýsingum og stuðningi, eru afgerandi í því sambandi. Það er góð hugmynd að ræða í upphafi kjörtímabils bæði í sveitarstjórn og nefndum hvernig stjórnsýslan eigi að þjónusta kjörna fulltrúa og hvaða rammi eigi að gilda um samskiptin. Eitt af því sem stjórnsýslan þarf að vera meðvituð um er að tími kjörinna fulltrúa er af skornum skammti og því þarf að leggja áherslu á að málsreifanir hennar séu hnitmiðaðar og á eins stuttu máli og hægt er að komast af með, og málsgögn aðgengileg.