Bið­laun

Starfsfólk sem fellur undir ákvæði kjarasamnings um biðlaun (í einhverjum tilvikum gr. 11.1.1)  á rétt á biðlaunum ef starf þeirra er lagt niður.  Þetta á við um starfsfólk sem ráðið var fyrir 1. mars 1997 og missir fast starf sitt án eigin sakar.   

Lengd biðlaunaréttar:   
  • 6 mánuðir, ef starfsmaður hefur starfað hjá sveitarfélögum í innan við 15 ár. 
  • 12 mánuði, ef starfsmaður hefur starfað hjá sveitarfélögum í 15 eða lengur.  

Í ljósi þess að um sólarlagsákvæði er að ræða og það starfsfólk sem enn á rétt á biðlaunum hefur að jafnaði allt starfað lengur en í 15 ár er biðlaunarétturinn í raun 12 mánuðir.  

Rétturinn til biðlauna fellur niður ef starfsmaður hafnar sambærilegu starfi innan sveitarfélagsins.  

Við mat á biðlaunarétti skal telja allan þann tíma sem viðkomandi hefur verið í þjónustu sveitarfélags.  

Endurráðning:  
  • Ef sama staða er stofnuð að nýju innan 5 ára, á viðkomandi starfsmaður sem fellur undir ákvæði um biðlaun, að öðru jöfnu, rétt á stöðunni. 
  • Ef starfsmaður, sem fellur undir ákvæði um biðlaun, sækir um annað starf sem losnar hjá sveitarfélaginu, innan 5 ára frá starfslokum, og hefur ekki átt sök á uppsögninni, situr viðkomandi fyrir um starfið, að öllu jöfnu.  
Samanlagður starfsaldur:   

Starfsaldur fyrir og eftir slík starfslok  er lagður saman og veitir sömu réttindi eins og um óslitna þjónustu hafi verið að ræða.   

Nýtt starf á biðlaunatíma: 

Ef einstaklingur, sem þiggur biðlaun, tekur við nýju starfi hjá sveitarfélaginu, áður en 6 eða 12 mánaða tímabilið er liðið:   

  • Biðlaun falla niður ef nýja starfinu fylgja jafn há eða hærri laun 
  • Ef launin í nýju stöðunni eru lægri, skal sveitarfélagið greiða launamismuninn til loka 6 eða 12 mánaða tímabilsins.   
Hverjir eiga ekki rétt á biðlaunum?  
  • Starfsfólk sem hóf störf hjá sveitarfélagi eftir 1. mars 1997   
Um sólarlagsákvæðið 

Ákvæðið mun með tíð og tíma falla úr gildi þar sem það takmarkast við starfsfólk sem hóf störf í þjónustu sveitarfélaga fyrir 1. mars 1997.   

Biðlaunaréttur og veikindi  

Biðlaunaréttur frestast ekki þó að viðkomandi starfsmaður sé veikur þegar starfið er lagt niður. Staðan er lögð niður og starfsmaðurinn fer á biðlaun þó svo að hann sé veikur og fær greidd biðlaun í sex eða tólf mánuði eftir því hve lengi hann hefur starfað í þjónustu sveitarfélags.  

Laun á biðlaunatíma 

Laun á biðlaunatíma eru að jafnaði föst laun er starfinu fylgdu.