Tengjum ríkið

Ráðstefnan Tengjum ríkið, þar sem fjallað er um stafræna framtíðarsýn hins opinbera og nýjungar sem unnið er að til að stórefla stafræna þjónustu, verður haldin 26. ágúst næstkomandi. Þetta er í annað sinn sem ráðstefnan er haldin, en hún fór fram í fyrsta sinn á síðasta ári.

Sveitarfélög eru hluti hins opinbera og mikil áhersla hefur verið lögð á stafræna framþróun innan þeirra raða á síðustu misserum.

Stafrænt Ísland stendur að ráðstefnunni en þar munu lykilstofnanir í opinberri þjónustu fjalla um sína stafrænu vegferð. Þá munu samstarfsaðilar Stafræns Íslands greina frá reynslu af þátttöku í fjölbreyttum stafrænum verkefnum og fara yfir nýja stafræna ferla sem nú eru aðgengilegir.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, opnar ráðstefnuna, en helsti fyrirlesari hennar er Kaidi-Kerli Kärner, sem er er yfirmaður stafrænna málefna (Strategic Planning Director) í efnahags- og samskiptaráðuneyti Eistlands. Erindi hennar ber heitið "Estonia’s journey and lessons learned towards becoming a fully digital country" og fjallar um þá lærdóma sem Eistland hefur dregið við þróun stafrænnar opinberrar þjónustu. Eistar eru meðal fremstu þjóða heims á þessu sviði og því margt af þeirra reynslu af læra fyrir Ísland.

Þá mun Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands, fara yfir framtíðarsýn Stafræns Íslands á ráðstefnunni og Einar Gunnar Guðmundsson sérfræðingur stafrænna umbreytinga hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu greina frá straumum og stefnum hins opinbera þegar kemur að stafrænum ferlum.

Að auki verða á ráðstefnunni um 15 örfyrirlestrar frá stofnunum og samstarfsaðilum.

Dagskrá hefst kl. 13:00 og lýkur 16.30.