Ráðstefnan Tengjum ríkið, þar sem fjallað er um stafræna framtíðarsýn hins opinbera og nýjungar sem unnið er að til að stórefla stafræna þjónustu, verður haldin 26. ágúst næstkomandi. Þetta er í annað sinn sem ráðstefnan er haldin, en hún fór fram í fyrsta sinn á síðasta ári.
Sveitarfélög eru hluti hins opinbera og mikil áhersla hefur verið lögð á stafræna framþróun innan þeirra raða á síðustu misserum.
Stafrænt Ísland stendur að ráðstefnunni en þar munu lykilstofnanir í opinberri þjónustu fjalla um sína stafrænu vegferð. Þá munu samstarfsaðilar Stafræns Íslands greina frá reynslu af þátttöku í fjölbreyttum stafrænum verkefnum og fara yfir nýja stafræna ferla sem nú eru aðgengilegir.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, opnar ráðstefnuna, en helsti fyrirlesari hennar er Kaidi-Kerli Kärner, sem er er yfirmaður stafrænna málefna (Strategic Planning Director) í efnahags- og samskiptaráðuneyti Eistlands. Erindi hennar ber heitið "Estonia’s journey and lessons learned towards becoming a fully digital country" og fjallar um þá lærdóma sem Eistland hefur dregið við þróun stafrænnar opinberrar þjónustu. Eistar eru meðal fremstu þjóða heims á þessu sviði og því margt af þeirra reynslu af læra fyrir Ísland.
Þá mun Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands, fara yfir framtíðarsýn Stafræns Íslands á ráðstefnunni og Einar Gunnar Guðmundsson sérfræðingur stafrænna umbreytinga hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu greina frá straumum og stefnum hins opinbera þegar kemur að stafrænum ferlum.
Að auki verða á ráðstefnunni um 15 örfyrirlestrar frá stofnunum og samstarfsaðilum.
Dagskrá hefst kl. 13:00 og lýkur 16.30.