Aðventufundur sveitarfélaga um hringrásarhagkerfi

Samband íslenskra sveitarfélaga efndi til fjarfundar sveitarfélaga undir yfirskriftinni Aðventufundur sveitarfélaga um hringrásarhagkerfi föstudaginn 16. desember kl. 10:00 til 12:00. Tilefnið voru breytingar á meðhöndlun úrgangs og kröfum til úrgangsstjórnunar sveitarfélaga sem innleiddar voru í íslenskt regluverk í júní 2021 og koma til framkvæmda áramótin 2022-2023. 

Upptaka frá fundinum

Ýmis verkefni hafa verið í gangi hjá sambandinu og sveitarfélögum á árinu sem var sagt frá á fundinum auk þess sem fulltrúar Umhverfisstofnunar munu fjalla um helstu breytingar sem verða um áramót. Fundurinn er haldinn í tengslum við átakið Samtaka um hringrásarhagkerfi sem sambandið setti á fót með aðstoð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins til að aðstoða sveitarfélög við að innleiða lagabreytingarnar. Á árinu var Handbók um úrgangsstjórn sveitarfélaga gefin út og var vinnan á ábyrgð sambandsins og Umhverfisstofnunar. Í handbókinni er fjallað um leiðir að bættri úrgangsstjórnun sveitarfélaga í samræmi við markmið sem sett hafa verið í tengslum við innleiðingu hringrásarhagkerfis. Sambandið fór af stað með Borgað þegar hent er hraðal í framhaldi af skýrslu Eflu í samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Ísafjarðarbæ og Grímsnes- og grafningshrepp í október. Hraðlinum lýkur um áramót og hefur það að markmiði að varpa betra ljósi á hvaða leiðir standa sveitarfélögum til boða til að innleiða nýjar kröfur um innheimtu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs. Jafnframt hefur sniðmát af útboðslýsingu, innkaupasamning og tilboðshefti fyrir sérstaka söfnun og þjónustu grenndarstöðva nýlega verið gert aðgengilegt öllum sveitarfélögum og ráðgjöfum þeirra.

Á fundinum verða umræður um stöðu innleiðingar nýju laganna og þær áskoranir sem sveitarfélögin standa frammi fyrir. Einnig gefst fulltrúum sveitarfélaga færi á að varpa fram spurningum sem á þeim brenna til sérfræðinga sambandsins og Umhverfisstofnunnar. Fyrir fundinn verður opnuð ný vefsíða á vegum sambandsins um svör við helstu spurningum sem upp hafa komið meðal sveitarfélaga vegna lagabreytinganna. Skrá þarf þátttöku á fjarfundinn fyrir 15. desember hér fyrir neðan. Nánari upplýsingar um tengingu við fjarfundinn verður send til skráðra þátttakenda í síðasta lagi að morgni fundardags.

Dagskrá fundarins

Inngangur
10:00Opnun fundarstjóra
Freyr Eyjólfsson, sérfræðingur SORPU bs.
10:05Ávarp
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga
10:15Sigrar og áskoranir sveitarfélaga á árinu
Eygerður Margrétardóttir, sérfræðingur í umhverfis- og úrgangsmálum hjá sambandinu
10:20Farsælt komandi úrgangsár! – hvað boða nýárs blessuð lög?
Hugrún Geirsdóttir, sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun
Staða innleiðngar og vinnan fram undan
10:30Endurskoðun svæðisáætlana og samþykkt vegna nýrra laga
Smári Jónas Lúðvíksson, verkefnisstjóri umhverfismála hjá SSNE
10:40Fjármálastjóri telur tunnur - Hvernig Ísafjarðarbær tekst á við breytta úrgangslöggjöf
Edda María Hagalín, fjármálastjóri Ísafjarðarbæjar
10:50Undirbúningur og innleiðing breyttrar hirðu í Reykjavík,
Guðmundur B. Friðriksson sviðstjóri Umhverfisgæða Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar
11:00Fyrirkomulag grenndar- og söfnunarstöðva í Grímsnes- og Grafningshreppi
Steinar Sigurjónsson, umsjónarmaður umhverfismála
11:10Umræður
12:00Fundi slitið