Kröfur til hins byggða umhverfis vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis

Samband íslenskra sveitarfélaga efndi til opins fjarfundar undir yfirskriftinni Kröfur til hins byggða umhverfis vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis þriðjudaginn 16. maí kl. 10:00 til 12:00. Fundurinn var hluti af fundarröð sambandsins undir átakinu Samtaka um hringrásarhagkerfi sem styrkt var af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

Fundarstjóri: Áróra Árnadóttir, framkvæmdastjóri Grænni byggðar

Tilefni fundarins eru breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs og fleiri lögum vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis sem innleiddar voru í íslenskt regluverk í júní 2021 og komu til framkvæmda um síðustu áramót. Með breytingunum eru gerðar frekari kröfur til flokkunar úrgangs á upprunastað og sérstakrar söfnunar ákveðinna úrgangsflokka á lóðum íbúa og lögaðila. Einnig eru gerðar kröfur til sveitarfélaga um rekstur grenndar- og söfnunarstöðva þar sem almenningur og fyrirtæki geta skilað úrgangi sem til fellur.

Þessar breytingar gera kröfur til byggða umhverfis þannig að almenningur og fyrirtæki geti flokkað og skilað úrgangi í sínu nærumhverfi á aðgengilegan hátt. Jafnframt þarf þjónustan að vera aðgengileg, góð og hagkvæm og tekið tillit til vinnuaðstæðna starfsfólks sem sinnir hirðu úrgangsins. Í ljós hefur komið að regluverk skipulags- og byggingarmála setur útfærslum á söfnun og annarri meðhöndlun úrgangs, hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli, ákveðnar skorður. Einnig gætir ákveðins misræmis milli laga og reglna sem máli geta skipt þegar stefnt er að því að ná markmiðum nýju hringrásarhagkerfislaganna. Á fundinum munu nokkrir lykilaðilar fjalla um hvaða áskoranir hið byggða umhverfi setur nýrri löggjöf um hringrásarhagkerfi.

  1. Opnun fundarstjóra. Áróra Árnadóttir, framkvæmdastjóri Grænni byggðar.
  2. Ávarp. Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdarstjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.
  3. Meðhöndlun úrgangs og byggða umhverfið. Flosi H. Sigurðsson, lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
  4. Áskoranir við innleiðingu nýju Hringrásarlaganna. Harpa Cilia Ingólfsdóttir sérfræðingur á sviði Starfsumhverfis mannvirkjagerðar hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
  5. Svansvottaðra byggingar og hringrásarhagkerfið. Guðrún Lilja Kristinsdóttir, sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun.
  6. Aðgengi fyrir alla. Bergur Þorri Benjamínsson formaður aðgengishóps Öryrkjabandalagsins.
  7. Vinnuaðstæður starfsfólks við sorphirðu – líkamsbeiting og aðrir áhættuþættir. María Jónsdóttir, sjúkraþjálfari og sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu.
  8. Áskoranir byggingarfulltrúa þegar kemur að innleiðingu á breyttu fyrirkomulagi í sorpflokkun. Anna Guðrún Gylfadóttir byggingarfulltrúi í Garðabæ.
  9. Staðsetningar og innra skipulag grenndar- og endurvinnslustöðva. Guðmundur Tryggvi Ólafsson rekstrarstjóri endurvinnslustöðva SORPU bs.
  10. Fyrirspurnir og umræður

  Fundarstjóri: Áróra Árnadóttir, framkvæmdastjóri Grænni byggðar