Hvers virði er vatnið?

Alþjóðlegur dagur vatnsins er 22. mars.

Dagurinn hefur verið tileinkaður málefninu síðan 1992, þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna lagði til við aðildarríkin að dagurinn yrði notaður til að skipuleggja atburði, uppákomur eða umfjöllun sem væru til þess fallin að styrkja vitund almennings um nauðsyn þess að standa vörð um vatn og um rétt mannkyns á hreinu vatni. Þema dagsins í ár er „Hvers virði er vatnið" (e. Valuing Water)  og hefur dagurinn beina tengingu inn í sjötta markmið Sameinuðu þjóðanna ,,Hreint vatn og hreinlætisaðstaða“. Vatn gegnir veigamiklu hlutverki í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og má einnig auðveldlega tengja það við markmið um heilsu og vellíðan, ekkert hungur og sjálfbær orka.

Hér á Íslandi tökum við hreinu vatni í flestum tilfellum sem sjálfsögðum hlut og þurfum ekki að kljást við sömu áskoranir og í mörgum öðrum löndum sem lýst er t.d. í eftirfarandi hlaðvarpi.  

Taktu þátt í dagskránni 22. mars

Vatn hefur mismunandi þýðingu fyrir jarðarbúa. Á degi vatnsins, 22. mars, erum við hvött til þess að velta því fyrir okkur hvaða máli vatn skiptir okkur.

  • Hvaða máli skiptir vatnið á heimilum okkar, í nær samfélaginu, í menningu og fyrir vellíðan okkar?
  • Við hvaða þætti tengjum við vatnið, náttúruna, frið, ró, sumar, snjó, sjó?
  • Í dag er vatnsskortur í heiminum og stöðugt er gengið á vatnsauðlindir jarðarinnar vegna ræktunar landbúnaðarlands, iðnaðar og vegna loftslagsáhrifa. Hvaða þýðingu hefur það fyrir okkur?

Dagskrá Dags vatnsins mun fara fram með rafrænum hætti að þessu sinni. Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig á vefnum https://www.unwater.org/worldwaterday2021/ og taka þátt í umræðum.