Viðburðir
30.08.2013 kl. 14:00 - 17:00

„Hæfnimiðað námsmat – lærum hvert af öðru“

Mennta- og menningarmálaráðuneytið í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands efna til málþings í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði 30. ágúst nk. um nýtt námsmat, sem grundvallast á hæfni nemenda og er kynnt í nýjum aðalnámskrám leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Fjallað verður um námsmat í skólastarfi í víðum skilningi og tækifæri munu gefast til að miðla hugmyndum og reynslu milli skóla og skólastiga.

Málþingið verður haldið í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði föstudaginn 30. ágúst, frá kl. 14.00-17.00. Inngangserindi og kynningar verða sendar út samtímis á vef í gegnum fjarfundabúnað og málstofur skipulagðar samhliða bæði á höfuðborgarsvæðinu og víðs vegar um landið eftir því sem áhugi og aðstæður leyfa á hverjum stað. Fyrirkomulagið er hið sama og notað var við sambærilegt málþing sem haldið var sl. haust um grunnþættina og sem þótti gefast vel. Þeir sem ekki geta nýtt sér þennan tiltekna dag hafa möguleika á að sækja efni ráðstefnunnar á vefnum og hagnýta sér það þegar betur hentar.