Úrgangsmál

Í lögum um meðhöndlun úrgangs kemur fram hvernig standa eigi að stjórnun úrgangsmála hérlendis. Sveitarfélög gegna þar veigamiklu hlutverki. Sveitarstjórnir ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu og bera ábyrgð á söfnun heimilisúrgangs. Þær bera einnig ábyrgð á að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem fellur til í sveitarfélaginu og setja samþykkt um helstu þætti í meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu og auglýsa hana í stjórnartíðindum. Sveitarfélög fara jafnframt oft með starfsleyfi urðunarstaða og móttöku á úrgangi og verða að skila inn upplýsingum til Umhverfisstofnunar þar um.

Sveitarfélög skulu innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Hægt er að hafa fast gjald á hverja fasteignaeiningu og miða það við magn úrgangs, tegund eða aðra þætti. Gjald sem sveitarfélag eða byggðasamlag innheimtir skal þó aldrei vera hærra en nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laga þessara. Sveitarfélögum er heimilt að fela stjórn byggðasamlags að ákvarða framangreint gjald. Sveitarfélag eða viðkomandi byggðasamlag skal láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldið má innheimta með aðför.

Sveitarfélögum ber að samþykkja svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs til tólf ára þar sem m.a. er ætlast til að staða úrgangsmála í sveitarfélaginu sé lögð fram og útlistað hvernig sveitarfélagið ætlar að ná markmiðum gildandi stefnu um meðhöndlun úrgangs og úrgangsforvarnir. Umhverfis- og auðlindaráðherra sem setur stefnu um meðhöndlun úrgangs og úrgangsforvarnir en Umhverfisstofnun fer með eftirlit með framkvæmd laga um meðhöndlun úrgangs.

Evrópusambandið (ESB) hefur með áherslu á hringrænt hagkerfi síðan 2014. Innleiðing ESB á Hringrásarhagkerfinu byggir í grunnunn á fimm tilskipunum. Fjórar þeirra voru samþykktar 2018 og komu í kjölfar yfirgripsmikillar endurskoðunar á Evrópulöggjöfinni um úrgang, sem hefur þann megintilgang að innleiða hringrásarhagkerfi og slíta tengslin milli hagvaxtar og myndunar úrgangs. Sú fimmta fjallar um plastvörur og var samþykkt 2019. Íslensk stjórnvöld munu taka upp þessar tilskipanir í gegnum EES samninginn.