Staðardagskrá 21 á Íslandi - Lífvænleg framtíð

Á Íslandi hófst umræða um sjálfbærni í sveitarfélögum á ráðstefnu um umhverfismál sem var haldin í júní 1997 á Egilsstöðum. Árið seinna var ráðinn sérstakur verkefnisstjóri, Stefán Gíslason, samkvæmt samkomulagi Sambands íslenskra sveitarfélaga og umhverfisráðuneytisins. Verkefnisstjórinn átti að sinna því að efla sjálfbærni í sveitarfélögum með ráðgjöf. Á næstu árum samþykktu mörg sveitarfélög staðardagskrá auk þess að undirrita Ólafsvíkuryfirlýsingu sem staðfesting á því að starfa samkvæmt stefnumótun sjálfbærrar þróunar. Haldnar voru árlega ráðstefnur um málefni staðardagskrá 21. Starfi verkefnisstjóra lauk í árslok 2009, um þróun staðardagskráverkefnisins má lesa í lokaskýrslu hans.

Frá og með árinu 2011 er sjálfbærni og málefnum staðardagskrá 21 sinnt af sérfræðingi á skrifstofu sambandsins.

Sjálfbærni er lykilhugtak sem hefur verið tekið inn í margar stefnur og áætlanir, hvort sem þær eru settar fram af ríkisvaldi eða sveitarfélögum. Stefna ríkisins í sjálfbærni birtist í skjalinu Velferð til framtíðar 2010 - 2013, en Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sjálfbæra þróun sem eitt af meginmarkmiðum og leiðarljósi, sbr.gr. 1.3.4 í stefnumótun sambandsins 2011 - 2014.