Sjálfbær sveitarfélög

 

Hugsun um sjálfbærni og sjálfbæra þróun er ekki ný af nálinni og hefur þekkst lengi hjá ýmsum þjóðum og þjóðflokkum um allan heim, en var gert að alþjóðlegu viðfangsefni í Brundtland-skýrslu árið 1987 „Our Common Future“ eða „Sameiginleg framtíð okkar“. Í þessari skýrslu er lýst hvernig best sé að bregðast við vaxandi umhverfismengun og fólksfjölgun, hvernig ætti að útrýma fátækt og tryggja jafna félagslega stöðu alls mannkyns. Fimm árum seinna, í júní 1992 var haldin í Rio de Janeiro fyrsta heimsráðstefnan Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun. Á henni var rætt um aðsteðjandi vandamál sem virða ekki landamæri, svo sem loftslagsbreytingar og fækkun á tegundum lífvera, bæði plantna og dýra. Fólk alls staðar í heiminum var að átta sig á því að plánetan okkar, Jörðin, stædi ekki endalaust undir takmarkalausri nýtingu auðlinda. Lausn þessara mála kallar á samvinnu allra þjóða en strax 1992 varð ljóst að borgir og sveitarfélög myndu gegna mikilvægu hlutverki í að breyta samkvæmt stefnumótun sjálfbærrar þróunar.

Stefnumótun á Rioráðstefnunni var sett fram sem dags- eða verkefnaskrá fyrir heiminn í heild (Agenda 21), og í 28. gr. þessarar heimsstefnumótunar um sjálfbærni er minnst á staðardagskrá 21 (Local Agenda 21). Nánar tiltekið var hér um að ræða áætlun um þau verk sem vinna þarf í hverju samfélagi um sig til að nálgast markmiðið um sjálfbæra þróun á 21. öld,  þ.e.a.s. þróun sem tryggir komandi kynslóðum viðunandi lífsskilyrði. Staðardagskrá 21 átti ekki að snúast eingöngu um umhverfismál í venjulegum skilningi, heldur var henni ætlað að taka jafnframt tillit til efnahagslegra og félagslegra þátta. Í raun og veru er Staðardagskrá 21 fyrst og fremst velferðaráætlun. Samkvæmt samþykkt Ríóráðstefnunnar átti að vinna verkið í samráði við íbúana á hverjum stað og með þátttöku atvinnulífs og félagasamtaka sem áætlun alls samfélagsins.

Staðardagskrá 21 er stefnumótun sem í raun lýkur aldrei, og hefst með formlegri samþykkt í sveitarstjórn. Á Íslandi hafa mörg sveitarfélög samþykkt staðardagskrá auk þess að undirrita svokallaða Ólafsvíkuryfirlýsingu sem staðfesting á því að starfa samkvæmt stefnumótun sjálfbærrar þróunar. Nauðsynlegt er að staðardagskráin sé í stöðugri endurskoðun í takt við breytta tíma og nýjar áherslur. Staðardagskrá 21 er með öðrum orðum ekki bara skjal, og ekki bara umhverfisáætlun, heldur fyrst og fremst ferli. Mörg sveitarfélög í heiminum hafa birt þessa stefnumótun undir ýmsum heitum, á Íslandi hefur t.d. Reykjavíkurborg nefnt áætlun sína „Reykjavík í mótun“.

Eftirfarandi fimm atriði hafa verið skilgreind sem meginþættir eða vegvísar fyrir Staðardagskrárstarfið:

  • Heildarsýn og þverfagleg hugsun
  • Virk þátttaka íbúanna
  • Hringrásarviðhorf
  • Tillit til hnattrænna sjónarmiða
  • Áhersla á langtímaáætlanir