Sveitarstjórnarlög

Sveitarstjórnarlög nr. 138/2011 tóku gildi 1. janúar 2012 en þar má finna meginreglur um stjórnsýslu sveitarfélaga. Helstu áherslubreytingar frá fyrri lögum voru m.a. þessar:

  • Mikil áhersla er lögð á sjálfbærni og aga í fjármálum sveitarfélaga, svo sem með setningu fjármálareglna, ákvæðum um bindandi gildi fjárhagsáætlana og kröfu um að aflað sé álits óháðs aðila vegna meiriháttar skuldbindinga.
  • Heill kafli laganna fjallar um samráð við íbúa og aðkomu þeirra að málefnum sveitarfélaga, skyldu sveitarstjórna til að upplýsa íbúa og um rétt íbúa til þess að krefjast almennrar atkvæðagreiðslu um einstök mál.
  • Stjórnskipuleg staða sveitarfélaga styrktist umtalsvert, m.a. vegna ákvæða um kostnaðarmat lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla sem er fyrirsjáanlegt að hafi fjárhagsleg áhrif á sveitarfélögin, skyldu ráðherra sveitarstjórnarmála til þess að gæta að hagsmunum sveitarfélaga og skyldu ráðuneyta og stofnana til þess að eiga samráð við landshlutasamtök um stefnumótun eða ákvarðanir sem varða viðkomandi landssvæði sérstaklega. Þá var í fyrsta sinn vísað beint til Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga í lögum en sáttmálinn var fullgiltur af Íslands hálfu árið 1991.
  • Aukin áhersla var lögð á gagnsæi, jafnræði og jafnrétti innan sveitarstjórna, m.a. um skyldu sveitarstjórna til að setja siðareglur, rétt framboða til þess að tilnefna áheyrnarfulltrúa í byggðarráð og fastanefndir, breyttar reglur um kjör í nefndir sem er ætlað að stuðla að jafnara hlutfalli kynjanna og rétt sveitarstjórnarmanna til að fá upplýsingar um samstarfsverkefni.

Sveitarstjórnarlög fela í sér mikið svigrúm fyrir sveitarstjórnir til að móta stjórnsýslu hvers sveitarfélags. Því þarf hver sveitarstjórn að samþykkja sérstaka samþykkt um stjórn og fundarsköp. Þar má t.d. finna nánari reglur um fjölda sveitarstjórnarmanna, um fjölda nefnda og ráða ásamt frekari meginreglum um starfsemi sveitarfélagsins. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur gefið út fyrirmynd að samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélags.

Sveitarstjórn og nefndir sveitarfélaga eru fjölskipuð stjórnvöld og því fer öll ákvarðanataka fram á sveitarstjórnar- eða nefndarfundum. Þar af leiðandi er mjög mikilvægt fyrir kjörna fulltrúa, sem og starfsmenn sveitarfélaga, að þekkja grundvallarreglur um fundarstjórn  og ritun fundargerða.

Sveitarstjórnarráðuneytið hefur birt auglýsingu um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna ásamt auglýsingu um leiðbeiningar um notkun fjarfundarbúnaðar á fundum sveitarstjórna. Sambandið hefur einnig tekið saman námskeiðishefti um fundi og fundargerðir.

Vakin er athygli á því að á vefsíðu sveitarstjórnarráðuneytisins má finna góða umfjöllun um sveitarstjórnarmál.