Styrkir til meistaranema

Á árinu 2015 samþykkti stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga að veita árlega á árunum 2016-18 styrki til allt að þriggja meistaranema við viðurkennda háskóla. Samþykkt þessi er gerð í tilefni af 70 ára afmæli sambandsins, sem stofnað var í júní árið 1945.

Skilyrði fyrir styrkveitingunni er að verkefnin sem sótt er um styrk til hafi skírskotun til markmiða eða aðgerða í stefnumörkun sambandsins 2014-2018. Á hverju ári er gert ráð fyrir að sambandið tilgreini þá stefnumörkunarþætti, sem leggja ber áherslu á að fjallað verði um í þeim lokaverkefnum sem verða styrkt. Þannig getur sambandið forgangsraðað þeim málum, sem það kallar eftir umfjöllun um, í lokaverkefnum þeirra meistaranema sem fá samþykkta styrki.


2018

 


2017

Lieselot Michele Maria Simoen

Félagslegt hlutverk leikskólans í fjölmenningarsamfélagi of viðleitni til að stuðla að réttlátara samfélagi. Ritgerðarefnið tengist verkefni nr. 17 í verkefnalista 2018.


Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvaða aðferðir hafa gefist vel til að styðja börn og foreldra af erlendum uppruna til þátttöku í íslensku samfélagi. Á evrópskum vettvangi er þetta grundvallaratriði í víðtækri skuldbindingu um að draga úr fátækt barna í öllum aðildarríkjunum. Í því felst viðurkenning á því að hágæða leikskólastarf hafi mikilvægu hlutverki að gegna og eigi að taka á ójafnræði allt frá barnæsku.

Bjarni D. Daníelsson

Stefnumótun og framtíðarsýn svæðisáætlana sveitarfélaga í úrgangsmálum. Er samhengi á milli aðferðafræðinnar og árangurs? Ritgerðarefnið tengist verkefni nr. 19 í verkefnalista 2018.

Skoðaðar voru tvær svæðisáætlanir um meðhöndlun úrgangs hér landi. Markmiðið var að athuga hvort að verkefnastjórn þeirra hafi stuðst við viðurkenndar aðferðir við stefnumótun og framtíðarsýn svæðisáætlananna. Þá var einnig skoðað hvort samhengi sé á milli aðferðafræði sem er beitt í stefnumótunarvinnu og árangurs sveitarfélaga við meðhöndlun úrgangs. Höfundur veitir nánari upplýsingar um efni ritgerðarinnar.

Dagný Kristjánsdóttir

Með hvaða hætti styðja sveitarfélögin við starfsþróun kennara, stjórnenda og annarra starfsmanna leik- og grunnskóla.  Ritgerðarefnið tengist verkefni nr. 13 í verkefnalista 2017.

Markmið rannsóknarinnar er að kanna hug skólafólks til þeirrar starfsþróunar sem sveitarfélögin hafa boðið upp á. Hvernig er staðið að endurmenntun, standa námskeiðin undir faglegum metnaði starfsins og starfsfólksins, eru námskeiðin í takt við starfið og ábyrgð þess? Niðurstöður könnunarinnar verða nýttar til að leggja drög að stefnumótun starfsþróunar fyrir sveitarfélög.

Anna Sigurjónsdóttir:

Þátttaka barna á sveitarstjórnarsgigi í málefnum sem þau varða. Rannsókn á ungmennaráðum á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við innleiðingu 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ritgerðarefnið tengist verkefni 20 í verkefnalista 2017.

Tólfta grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er ein megin grein sáttmálans
þegar kemur að innleiðingu hans. Greinin fjallar um rétt barna til að láta skoðanir
sínar í ljós og til að hafa áhrif. Á Íslandi eru ungmennaráð vettvangur fyrir börn til
að koma fram sínum skoðunum og aðstoða sveitarstjórnir. Í þessari rannsókn
verður ungmennaráð höfuðborgarsvæðisins skoðuð sem vettvangur fyrir börn til
að nýta þessi réttindi sín og athugað hvernig innleiðingarferlið varðandi þessa grein er háttað.

Ólafía Erla Svansdóttir:

Loftlagsstefnur sveitarfélaga. Hlutverk, ábyrgð, einkenni. Ritgerðarefnið tengist verkefni 25 í verkefnalista 2017.

Markmið þessa verkefnis er að rannsaka innleiðingu, stefnumörkun
umhverfisstefnu og umhverfisstjórn sveitarfélaga í samhengi við rannsóknir,
fræðilega umfjöllun og viðtöl við tengda aðila, í þeim tilgangi að finna út hvaða leið sé farsælust til að draga úr neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga.


2016

Magnea Steinunn Ingimundardóttir – Háskólinn á Bifröst

Heiti ritgerðar: Þjónandi forysta og sjálfstæði í starfi starfsmanna í stjórnsýslu sveitarfélaga.

Hugmyndafræði þjónandi forystu skapar starfsumhverfi sem einkennist af jafningjabrag, umboði til athafna og frelsi til frumkvæðis starfsmanna. Starfsmenn öðlast sjálfstæði í starfi, innri áhuga og vilja til að veita öðrum þjónustu. Starfsmaður stígur fram, hefur frumkvæði og leiðir í þeim verkefnum sem hann hefur hæfni eða reynslu til óháð því hvar hann er staðsettur í skipuriti. Þannig starfsumhverfi er mikilvægt í opinberri stjórnsýslu. Afrakstur væri aukin starfsánægja og árangur í starfi.

Soffía Guðrún Guðmundsdóttir – Háskóli Íslands

Heiti ritgerðar: Grá svæði í þjónustu við börn.

Í verkefninu verður rannsakað hvernig þjónusta er hér á landi við börn sem eru með sértækar þarfir. Jafnframt verður samstarf sveitarfélaganna við ríkið um þennan málaflokk skoðað. Hagræðing ríkisins verður einnig skoðuð í þessu sambandi og hvort hún hafi haft áhrif á gæði þjónustunnar. Samhliða því verður skoðað hvort þessi þjónusta standist ákvæði Barnasáttmálans um fullnægjandi vernd og umönnun við börn og hvort/hvernig úrbóta sé þörf í því sambandi.

Sunna Jónína Sigurðardóttir – Háskóli Íslands

Heiti ritgerðar: Úttekt á vefjum sveitarfélaga -hvað er mikilvægast og hvernig má bæta þjónustu á vefnum með auðveldum hætti.

Vefurinn er mikilvægt tæki fyrir sveitarfélög til þess að veita íbúum aðgang að upplýsingum og þjónustu. Að mörgu er að huga í þessum efnum og hafa úttektir bent til þess að ýmsu sé ábótavant. Í þessu verkefni er leitast við að greina lykilverkefni á vefjum sveitarfélaga og leiðbeina um miðlun þeirra en einnig verða rafrænar umsóknir og rafræn þjónusta skoðuð sérstaklega.