Siðamál

Leiðbeiningar um gerð siðareglna

Siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur gefið út leiðbeiningar til nýrra sveitarstjórna um gerð siðareglna og hlutverk siðanefndar. Í leiðbeiningunum eru  nýjar sveitarstjórnir minntar á skyldu þeirra skv. 29. gr. sveitarstjórnarlaga til að meta hvort ástæða er til að endurskoða siðareglur sveitarfélagsins og setja siðareglur hafi það ekki þegar verið gert.  Jafnframt eru veittar leiðbeiningar um hvernig sé rétt að standa að skráningu siðareglna. Til að fylgja leiðbeiningunum eftir hélt formaður siðanefndarinnar Sigurður Kristinsson kynningu fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar sem var tekin upp þannig að hún gæti nýst fleiri sveitarfélögum.  Kynningin er aðgengileg hér. Henni hefur verið skipt upp í tvo hluta. Í fyrri hlutanum fjallar Sigurður um siðferðileg álitamál í starfi kjörinna fulltrúa og í seinni hlutanum svarar hann spurningum bæjarfulltrúa um ýmis álitaefni sem komið hafa upp í þeirra störfum.

Kynning formanns siðanefndar

Fyrri hluti


Seinni hluti

Siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga skipaði á fundi sínum þann 13. desember 2013 siðanefnd og kom nefndin saman til fyrsta fundar mánudaginn 7. apríl 2014.

Siðanefndina skipa:

  • Sigurður Kristinsson, heimspekingur og prófessor á hug- og félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri, formaður
  • Erling Ásgeirsson, bæjarfulltrúi í Garðabæ, varaformaður og
  • Anna Guðrún Björnsdóttir, lögfræðingur og sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs sambandsins, sem jafnframt er starfsmaður nefndarinnar.

Helstu verkefni nefndarinnar eru samkvæmt skipunarbréfi:

  1. Að veita ráð um efni og framsetningu siðareglna og endurskoðun þeirra
  2. Að gefa út almennar leiðbeiningar til sveitarfélaga um túlkun siðareglna eftir því sem tilefni eru til.
  3. Að fjalla almennt um skýringar á ákvæðum siðareglna með það fyrir augum að málum verði beint í réttan farveg. Nefndin hefur ekki úrskurðarvald um hvort siðaregla hafi verið brotin í ákveðnu tilviki heldur beinist umfjöllun hennar að því hvernig hægt sé að færa mál til betra horfs í framtíðinni.
  4. Að veita sambandinu og stjórn þess aðstoð þegar þörf er á sérþekkingu sem nefndarmenn búa yfir, m.a. vegna námskeiða- og ráðstefnuhalds.

Í skipunarbréfi kemur einnig fram að í álitamálum varðandi túlkun á siðareglum tiltekins sveitarfélags skuli að jafnaði miða við að nefndin taki slík mál til meðferðar á fundi, ef tveir fulltrúar í sveitarstjórn standa að baki ósk um umfjöllun nefndarinnar. Umboð siðanefndar nær ekki til þess að afla gagna eða rannsaka málsatvik með sjálfstæðum hætti. Siðanefndin mun gera tillögu til stjórnar sambandsins um nánari málsmeðferðarreglur þar sem m.a. er fjallað um birtingu álita og annarra niðurstaðna og skilyrði þess að mál séu tekin til umfjöllunar.

Fundargerðir siðanefndar.