Verkefnisstjóri í skólamálum

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og með stuðningi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga ráðið Björk Ólafsdóttur, matsfræðing, sem verkefnisstjóra í skólamálum til tveggja ára.

Markmið verkefnisins er að vinna að innleiðingu á  ákvæðum í nýjum lögum um leik- og grunnskóla um mats- og eftirlitsskyldu sveitarfélaga og að fylgja eftir sameiginlegri framtíðarsýn Sambands íslenskara sveitarfélaga, Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands fyrir grunnskólastarf til ársins 2020.

Megináhersla í starfi verkefnastjóra er að:

  1. Kortleggja samfélagslegar rannsóknir þar sem gagna er aflað í leik- og grunnskólum.  Markmiðið er að gefa yfirlit yfir upplýsingaöflun í leik- og grunnskólum til að stuðla að aukinni hagnýtingu á þeim.

  2. Skýra eftirlits- og matshlutverk sveitarfélaga gagnvart ráðuneytinu samkvæmt nýjum lögum um leik- og grunnskóla. Markmiðið er að auðvelda sveitarfélögum að  uppfylla þessi  ákvæði laganna, til dæmis með hönnun leiðbeininga fyrir skólanefndir. Leiðbeiningar fyrir skólanefndir (sjá tengla hér til hægri)

  3. Veita sveitarfélögum almenna ráðgjöf um val, greiningu og samhæfingu á mælitækjum og aðferðum til þess að auðvelda þeim að uppfylla skyldur sínar um eftirlit með skólastarfi og mat á gæðum þess.  Þróun Skólavogar verður skoðuð með hliðsjón af hvort hún geti verið sveitarfélögum stuðningur í þeim efnum.

  4. Veita sveitarfélögum almenna ráðgjöf varðandi stefnumótun í skólamálum.  Með nýjum lögum um leik- og grunnskóla er gerð skólastefnu nú lögbundið verkefni sveitarfélaga. Markmiðið er að hanna leiðbeiningar (sjá tengla hér til hægri) sem gætu auðveldað sveitarfélögum þessa vinnu og safna saman upplýsingum um sveitarfélög sem hafa stigið þetta skref svo aðrir geti litið til reynslu þeirra.

  5. Fylgja eftir sameiginlegri framtíðarsýn fyrir grunnskólastarf til 2020.  Markmiðið er að skoða þróun Skólavogar í því samhengi og gera áherslur framtíðarsýnar aðgengilegar sem viðmið við gerð skólastefnu sveitarfélaga.

Verkefnisstjóri vinnur náið með starfsmönnum sambandsins og ráðuneytisins.  Verkefnið kallar einnig á samstarf við skólaskrifstofur, forsvarsaðila sveitarfélaga og skólanefnda og fleiri hagsmunaaðila að framangreindum verkefnum.