Spurningar og svör af námskeiðum fyrir skólanefndir


Ábyrgð og skyldur
Áheyrnarfulltrúar
Hæfi og kjörgengi
Misbrestur á skólasókn
   
    Ýmislegt

Ábyrgð og skyldur

Hversu formleg þurfa erindi til skólanefndar að vera og hvernig má koma málum á dagskrá fundar? Getur skólanefndarfulltrúi beðið um umfjöllun um mál í nefndinni?

Gera verður ráð fyrir að í samþykktum sveitarfélaga og/eða erindisbréfum viðkomandi skólanefnda sé kveðið á um með hvaða hætti mál séu tekin á dagskrá með formlegum hætti.  Almennt séð getur skólanefndarfulltrúi fengið mál tekin á dagskrá sem varða  velferð og hagsmuni barna og ungmenna skv. lögum um leik- og grunnskóla. Skólanefndarfulltrúi (hvort sem hann er kjörinn af sveitarstjórn eða áheyrnarfulltrúi) getur þannig óskað eftir því að ræða tiltekið mál sem stutt er málefnalegum rökum og gögnum og hefur ekki fengið umfjöllun áður eða ný gögn komin fram í því. Meirihluti nefndar getur hafnað því að taka mál á dagskrá m.a. ef engin ný gögn eða sjónarmið hafa komið fram sem gefa tilefni til nýrrar umræðu. Það ætti hins vegar heyra til undatekninga hafi mál ekki verið rætt áður.

Hver er ábyrgð skólanefndar að fylgja eftir úttektum á skólum í sveitarfélaginu?

Í reglugerðum um mat og eftirlit í leik- og grunnskólum (nr. 893/2009 og nr. 658/2009) kemur fram að skólanefnd skuli sjá til þess að áætlanir um nauðsynlegar umbætur í kjölfar ytra mats séu gerðar og þeim fylgt eftir. Fyrir skólanefndina þýðir þetta ákvæði að hún þarf að fylgja því eftir að skólinn geri áætlun í kjölfar ytra mats/úttektar þar sem fram kemur hvernig hann ætlar að vinna að umbótum. Ennfremur á  hún að sjá til þess að fylgst sé með því, t.d. ári síðar, að áætlunin hafi gengið eftir – það getur verið skólanefndin sjálf sem fylgir umbótaáætlun skóla eftir, eða starfsmaður á hennar vegum.   

Hvert er hlutverk skólanefndar þegar hún fær ábendingar um að skólar í sveitarfélaginu fara ekki að lögum?

Ef ábending kemur um að skóli fari ekki að lögum og sinni ekki lögbundnum skyldum sínum þá á skólanefndin samkvæmt reglugerðum um mat og eftirlit í leik- og grunnskólum (nr. 893/2009 og 658/2009) að ganga úr skugga um hvort ábendingin eigi við rök að styðjast og sjá til þess að viðeigandi úrbætur séu gerðar ef þess er þörf.

Hver er ábyrgð skólanefndar ef leikskólastjóri nær ekki samkomulagi við sveitarstjórn um að fylgja eftir reglugerð nr. 655/2009 um starfsumhverfi leikskóla og athugasemdum vinnueftirlitsins með tilteknum úrbótum?

Skólanefnd ber ábyrgð á að farið sé eftir settum lögum og reglugerðum um öryggi og aðbúnað barna, bæði í leikskólum og grunnskólum, og ber að tryggja að farið sé eftir settum reglum. Í þessu felst að skólanefnd þarf að afla sjónarmiða bæði frá skólastjóra og sveitarstjórn og taka afstöðu á grundvelli þeirra.

Getur sveitarstjórn, á miðju starfsári, farið fram á endurskoðun á starfsáætlun skóla sem skólanefnd hefur staðfest fyrir veturinn?

Já, ef forsendur starfsáætlunar hafa breyst er málefnalegt tilefni til þess að endurskoða hana, þ.m.t. ef fjárhagsrammi starfseminnar breytist. Einnig þarf að gæta tiltekinna formsatriða eins og þeirra að fjalla um málið í skólaráði sbr. greinargerð með frv. til 29. gr. laga um grunnskóla þar sem segir: „Bæði skólanámskráin og árlegar starfsáætlanir hvers skóla skulu ræddar í skólaráði eftir þörfum, samkvæmt ákvæðum í 8. gr. frumvarpsins.“ Hafa þarf þetta í huga ef vilji er til þess í sveitarstjórn að fela skólanefnd að endurskoða starfsáætlun á miðju skólaári.

Getur sveitarstjórn sent starfsáætlun skóla aftur til skólanefndar sem nefndin hefur staðfest og skólaráð og starfsfólk skóla samþykkt fyrir sitt leyti?

Telja verður að sveitarstjórn geti gert athugasemdir við að skólanefnd hafi staðfest starfsáætlun skóla ef rökstudd ástæða er til þess að ætla að eitthvað í áætluninni sé ekki í samræmi við ákvarðanir sem sveitarstjórn hefur tekið um fyrirkomulag skólahalds. Framgangurinn er þá væntanlega sá að sveitarstjórn fari fram á það að skólanefnd taki málið fyrir að nýju.


Áheyrnarfulltrúar

Hvað felst í því að vera áheyrnarfulltrúi í skólanefnd? Hvert er hlutverk þeirra? Hvers vegna heita þeir áheyrnarfulltrúar?

Fulltrúar sem ekki eru kjörnir til setu í skólanefnd af sveitarstjórn heldur valdir af foreldrum, kennurum og skólastjóra sem rödd viðkomandi hagsmunahóps með málfrelsi og tillögurétt eru áheyrnarfulltrúar. Þeir geta lagt fram tillögurog tekið þátt í umræðum um mál en ekki greitt atkvæði um þau.

Hvernig er rétt að standa að skipan áheyrnarfulltrúa foreldra  í skólanefnd í stærri sveitarfélögum þar sem reknir eru fleiri en einn grunnskóli?

Í sveitarfélögum þar sem reknir eru margir grunnskólar er æskilegt að áheyrnarfulltrúar foreldra séu tilnefndir af samtökum foreldra í sveitarfélaginu sem mynda samráðsvettvang foreldrafélaga allra skóla. Í Reykjavík eru t.d. starfandi samtök foreldra, SAMFOK, sem velja áheyrnarfulltrúa foreldra og í Hafnarfirði er foreldraráð Hafnarfjarðar. Þar sem ekki eru starfandi slík samtök foreldra í sveitarfélaginu þurfa foreldrar við grunnskóla sveitarfélagsins að finna lýðræðislega leið til að velja áheyrnarfulltrúa foreldra.

Eiga áheyrnarfulltrúar í skólanefnd rétt á því að fá sömu gögn og kjörnir fulltrúar fyrir skólanefndarfundi?

Já, að því gefnu að um sé að ræða gögn er snerta það skólastig sem þeir eru fulltrúar fyrir.

Ef starfandi er ein skólanefnd fyrir leik-, grunn- og/eða tónlistarskóla í sveitarfélaginu hvernig er þá best að skipuleggja fundi með hliðsjón af hlutverki áheyrnarfulltrúa?

Áheyrnarfulltrúar eiga rétt til setu á fundum skólanefndar þegar málefni þess skólastigs er til umfjöllunar og einnig þegar almennt er fjallað um skólamál í sveitarfélaginu. Reyndar er ekki lögbundið að sérstakir áheyrnarfulltrúar frá tónlistarskólum sitji fundi skólanefndar en víða tíðkast að skólastjórar tónlistarskóla séu kallaðir til þegar málefni tónlistarskóla er til umfjöllunar. Mögulegt er að skipta skólanefndarfundum eftir skólastigum og enda síðan eða byrja á almennum málum þar sem allir áheyrnarfulltrúar eru boðaðir. Eins er mögulegt að skipa málum með þeim hætti að áheyrnarfulltrúum sé boðið að taka þátt í umræðum um öll mál óháð skólastigi, m.a. til að fá fram heildstæða umræðu um skólamál.

Geta áheyrnarfulltrúar komið með tillögur um að fresta afgreiðslu mála?

Já, þeir hafa tillögurétt eins og þeir fulltrúar sem kjörnir eru af sveitarstjórn en þeir hafa ekki atkvæðisrétt.

Hafa kjörnir fulltrúar í skólanefnd heimild til að halda skólanefndarfundi án áheyrnarfulltrúa, t.d. svokallaða vinnufundi?

Mennta- og menningarmálaráðuneytið svaraði sambærilegri fyrirspurn með því að vísa í áður útgefið álit af hálfu samgönguráðuneytis (nú innanríkisráðuneyti) frá árinu 2004. Þar kom fram sú skýra meginregla samkvæmt sveitarstjórnarlögum að starfsemi lögbundinna nefnda sveitarfélagsins á að fara fram á formlegum fundum. Hvorki í sveitarstjórnarlögum né í samþykkt viðkomandi sveitarfélags sem fyrirspurnin varðaði væri að finna ákvæði um heimild nefndar til að halda vinnufundi eða skipa starfshóp úr hópi nefndarmanna.

Telji formaður skólanefndar að nauðsynlegt sé að vinna óformlega að undirbúningi

mála milli funda verður að vera hafið yfir allan vafa að með því sé ekki verið að sniðganga

skólanefnd eða forðast að áheyrnarfulltrúar fylgist með umræðu. Hluti skólanefndar  getur ekki haldið vinnufundi án áheyrnarfulltrúa til að vinna að tilteknu málefni sem fellur undir

verksvið nefndarinnar þannig að slíkur fundur teljist fullgildur skólanefndarfundur. Ráðuneytiðð benti á hinn bóginn á að skólanefnd getur falið nefndarmönnum afmarkað verkefni milli funda sem síðan verði lagt fyrir formlegan fund.

 

Hver er aðkoma áheyrnarfulltrúa kennara og foreldra í skólanefnd samrekins skóla? Getur sami fulltrúinn verið fyrir bæði skólastig í samreknum skóla?

Ef samrekinn leik- og grunnskóli er eini skólinn í sveitarfélaginu þá á skólastjóri skólans, kennari og foreldri rétt til setu í skólanefnd sveitarfélagsins samkvæmt leik- og  grunnskólalögum. Til greina kemur að fulltrúar foreldra og kennara verði fleiri en einn og komi af báðum skólastigum eða skólastig sameinist um einn fulltrúa foreldra og einn fulltrúa kennara. Ákvörðun um slíkt er tekin innan skólasamfélagsins. 

Mega áheyrnarfulltrúar leik- og grunnskóla fjalla um fjárhagsáætlanir sinna stofnana?

Áheyrnarfulltrúar geta tekið þátt í umræðum um öll mál sem tekin eru til umfjöllunar í skólanefnd, nema þegar þeir eru taldir vanhæfir í lagalegum skilningi.Hæfi og kjörgengi

Hver er munurinn á vanhæfi og kjörgengi skólanefndarmanna?

Hér er um tvö aðgreind en skyld atriði að ræða. Fjallað er um hvort tveggja í sveitarstjórnarlögum, annars vegar um vanhæfisástæður (19. gr.) og hins vegar um kjörgengi (40. gr.)

Kjörgengi varðar almennt þá kosti sem talið er nauðsynlegt að þeir búi yfir sem eru fulltrúar sveitarstjórnar í nefndum á hennar vegum. Þannig eru þeir einir kjörgengir í skólanefnd sem eiga kosningarétt í sveitarfélaginu eins og segir í 3. mgr. 40. gr. Með þessum hætti hefur löggjafinn lagt áherslu á að tiltekin tengsl við samfélagið séu eftirsóknarverð. Af lagareglunni leiðir að missi skólanefndarmaður (fulltrúi sveitarstjórnar) þessi tengsl, þ.e. uppfyllir ekki lengur kjörgengisskilyrði um kosningarétt einkum vegna búferlaflutninga, þá missir viðkomandi jafnframt sæti sitt í nefndinni. Ekki leiða hins vegar allir búferlaflutningar til breytingar á kjörgengisskilyrðum  og í vissum tilvikum (m.a. ef nám er stundað í öðru sveitarfélagi) getur viðkomandi fulltrúi óskað eftir að fá tímabundið leyfi frá störfum í skólanefnd samkvæmt 4. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga.

Löggjafinn hefur einnig ákveðið að starfsmenn stofnunar á vegum sveitarfélags séu ekki kjörgengir í nefnd sem fer með málefni hennar. Hér eru tengslin mörkuð með öðrum hætti, þ.e. þannig að almennt beri að forðast hagsmunaárekstra sem í því felast að starfsmaður sé að taka þátt í ákvörðun sem varðar starf hans og vinnuaðstæður. Má orða þetta þannig að þegar fyrirsjáanlegt er að nefndarmaður muni oft hafa einstaklingsbundna hagsmuni af úrlausn mála vegna starfa sinna, sé æskilegra að sveitarstjórn feli sætið öðrum einstaklingi sem ekki myndi í sama mæli þurfa að lýsa sig vanhæfan við meðferð mjög margra mála á starfssviði nefndarinnar.

Taki kjörinn fulltrúi við starfi við skóla sem skólanefnd fjallar um, getur það haft áhrif á kjörgengi hans með sama hætti og búferlaflutningar. Þar þarf þó að meta hvers eðlis starfið er en í 4. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga kemur fram að sveitarstjórn geti ákveðið að ráðning í starf valdi ekki missi kjörgengis ef málefni vinnuveitanda eru óverulegur þáttur í starfi viðkomandi nefndar og starf viðkomandi einstaklings er ekki þess eðlis að hætta sé á hagsmunaárekstrum þrátt fyrir nefndarsetu.

Hafa ber í huga að þessi kjörgengisskilyrði um kosningarétt og starf á vegum stofnunar eiga einungis við um þá sem sveitarstjórn kýs sem sína fulltrúa í skólanefnd. Öðru máli gegnir um aðra sem sitja í skólanefnd, t.d. getur unglingur verði fulltrúi skólasamfélags í skólanefnd, enda þótt hann sé ekki kominn með kosningarétt.

Á sama hátt sitja fulltrúar skólasamfélagsins í skólanefnd vegna tengsla sinna við skólann og hefur löggjafinn þar tekið afstöðu til þess að þau tengsl vegi þyngra en möguleiki á hagsmunaárekstrum. Það merkir hins vegar ekki að hagsmunaárekstrar vegna þessara tengsla hafi ekki áhrif. Í því efni reynir á áðurnefndar vanhæfisástæður, en lagareglur þar að lútandi gilda bæði um kjörna fulltrúa sveitarstjórnar í skólanefnd og aðra þá sem sitja fundi skólanefndar sem áheyrnarfulltrúar eða starfsmenn. Kennari við grunnskóla myndi t.d. vera vanhæfur og þurfa að víkja af fundi skólanefndar við umfjöllun um skipulagsbreytingar sem haft gætu áhrif á starf hans.

Hvernig er skorið úr um hæfi skólanefndarmanna í einstökum málum?

Ólíkt kjörgengisskilyrðum eiga vanhæfisástæður við um meðferð einstakra mála. Vanhæfisástæða kemur fyrir þar sem málsatvik eða -tengsl varða skólanefndarmann eða annan þann sem situr fundi nefndarinnar svo mikið að almennt má ætla að viljaafstaða hans til niðurstöðu málsins mótist að einhverju leyti þar af. Sé vanhæfisástæða til staðar hefur hún þau áhrif að skylda viðkomandi skólanefndarmann, eða annan þann sem situr fundi nefndarinnar, til að víkja sæti við allan undirbúning, meðferð og afgreiðslu umrædds máls.

Það er hlutverk skólanefndarinnar sjálfrar að skera úr um hvort vanhæfisástæða er til staðar. Nefndin tekur afstöðu til málsins hvort sem það er hlutaðeigandi nefndarmaður eða einhver annar sem vekur athygli á því að vanhæfisástæða sé hugsanlega fyrir hendi. Áríðandi er að afstaða sé tekin til hæfis fundarmanna áður en efnisleg umfjöllun hefst um mál.

Oftast mun liggja ljóst fyrir hvaða tengsl það eru milli nefndarmanns og máls sem valda meintu vanhæfi og má þar hafa í huga hina gamalgrónu reglu um að enginn geti verið dómari í eigin sök. Ágreiningur um stjórnunarhætti innan skóla eru dæmi um mál þar sem stjórnendur myndu yfirleitt víkja sæti vegna tengsla. Í einhverjum tilvikum getur þó þurft að afla nánari upplýsinga um tengslin og er þá rétt að fresta fundi meðan það er gert. Séu tengslin óljós eða mjög langsótt getur komið til álita að nefndin fallist ekki á að vanhæfisástæða sé til staðar. Nefndarmaður á heldur ekki að geta komist hjá því að taka þátt í umfjöllun um óþægilegt mál með því einu að bera við vanhæfi.

Eftir að vakin hefur verið athygli á mögulegri vanhæfisástæðu á skólanefnd að skera umræðulaust úr um það hvort málið sé þannig vaxið að einhver fundarmanna sé vanhæfur. Skólanefndarmaður sem er vanhæfur má taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt, en ef afstaða nefndarinnar liggur ljós fyrir er einnig unnt að afgreiða málið án atkvæðagreiðslu. Sé niðurstaðan að vanhæfisástæða sé til staðar á viðkomandi fundarmaður þegar að yfirgefa það rými þar sem fundur fer fram og snúa fyrst aftur þegar allri umfjöllun um málið hefur verið lokið.

Afgreiðslu nefndarinnar, hvort sem hún fæst með atkvæðagreiðslu eða ekki, á alltaf að færa í fundargerð. Slík bókun myndi yfirleitt vera mjög stutt því gengið er út frá því að engin eiginleg umræða fari fram um meint vanhæfi. Nefndarmanni er þó heimilt að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni til máls sem hann er vanhæfur í og er rétt að færa inntak hennar til bókar. Nefndarmaðurinn má hins vegar ekki leggja fram neins konar tillögu um afgreiðslu málsins.

Getur starfsmaður byggðasamlags um rekstur skóla verið kjörinn fulltrúi í skólanefnd?

Það er ekkert sem mælir gegn því svo fremi sem hann heyrir ekki undir boðvald skólastjóra.

Getur kennari við skóla sveitarfélagsins verið áheyrnarfulltrúi foreldra í skólanefnd?

Forðast ætti að upp komi sú staða að kennari sé jafnframt tilnefndur sem fulltrú foreldra.

Má svstj. kjósa kennara við framhaldsskóla eða tónlistarskóla sem sinn fulltrúa í skólanefnd leik- og grunnskóla?

Já, þeir eru kjörgengir með vísun til 4. mgr. 40 gr. Sveitarstjórnarlaga svo framarlega sem ekki er um samrekstur þeirra skólastiga að ræða.

Getur skólaliði átt setu í skólanefnd sem kjörinn fulltrúi?

Nei, hann getur ekki verið kjörinn ftr. Í skólanefnd. Hins vegar er þröng heimild til frávika í 4. Mgr. 40. Gr. Svstjl. Þar sem segir:„...starfsmenn fyrirtækja og stofnana sveitarfélags ekki kjörgengir í nefndir, ráð og stjórnir þeirra fyrirtækja eða stofnana er þeir starfa hjá. Sveitarstjórn getur ákveðið að víkja frá þessu ákvæði ef málefni vinnuveitanda eru óverulegur þáttur í starfi viðkomandi nefndar og starf viðkomandi einstaklings er ekki þess eðlis að hætta sé á hagsmunaárekstrum þrátt fyrir nefndarsetu.“  Helst kemur til álita að beita fráviksheimildinni gagnvart störfum sem ekki eru í beinum tengslum við almennt skólastarf.

Eru börn skólastjóra kjörgeng í skólanefnd? Í hvaða tilvikum eru þau að vanhæf?

Börn skólastjóra eru kjörgeng til setu í skólanefnd nema þau starfi við skóla sveitarfélagsins. Hins vegar þurfa þau að gæta vel að reglum um sérstakt hæfi skv. stjórnsýslulögum og sveitarstjórnarlögum þegar málefni sem snerta foreldri þeirra eru til umfjöllunar.
Misbrestur á skólasókn

Hver er ábyrgð skólanefnda þegar misbrestur er á skólasókn nemenda í grunnskóla? Á skólanefnd að koma að brottrekstrarmáli nemenda áður en skólastjóri tekur ákvörðun?

Samkvæmt grunnskólalögum er ekki gert ráð fyrir aðkomu skólanefnda þegar um misbrest á skólasókn nemanda er að ræða, skv. 19. gr. grunnskólalaga. Skólastjóri á að leita lausna á málinu, taka ákvörðun um úrbætur og tilkynna jafnframt barnaverndarnefnd um málið.  Eðlilegt er að skólastjóri upplýsi skólanefnd um mál af þessu tagi. Gæta þarf ákvæða stjórnsýslulaga við afgr. mála af þessari gerð.

Ef nemandi hættir að mæta í skóla og skólastjóri tilkynnir um það til skólanefndar og fræðslustjóra er það brot á trúnaðarskyldu?  

Það er þáttur í meginhlutverki skólanefndar, skv. a-lið 2. mgr. 6. gr. grunnskólalaga, að sjá til þess að öll skólaskyld börn sem rétt eiga á skólavist í sveitarfélaginu njóti lögboðinnar fræðslu. Það leiðir af þessu ákvæði, og öðrum sem fjalla um hlutverk skólanefndar, að stjórnendur mega veita skólanefnd upplýsingar um það ef barn hættir að sækja skóla án þess að sú skylda hvíli á þeim skv. lögum. Hvorki trúnaðarskylda í starfi né ákvæði laga um meðferð persónuupplýsinga koma í veg fyrir að þessar upplýsingar séu veittar.


Ýmislegt

Er í samreknum leik- og grunnskóla nóg að hafa skólaráð sem er skipað fulltrúum skv. lögum um grunnskóla eða þarf líka að hafa foreldraráð samkvæmt leikskólalögum?

Sveitarstjórn getur ákveðið að skólaráð, sbr. 8. gr. grunnskólalaga, og foreldraráð, sbr. 11. gr. laga um leikskóla, starfi sameiginlega í einu ráði. Þá er gert ráð fyrir að annar fulltrúi foreldra í skólaráði eigi barn á leikskólaaldri og hinn á grunnskólaaldri (nema hvort tveggja sé ;-).

Getur skjalið um úrlausn erfiðra ágreiningsmála sem upp geta komið í grunnskólastarfi átt við í e-m tilvika fyrir leikskólann líka?

Þetta skjal á ekki við um starfshætti leikskólans þó svo það endurspegil ákveðnar megienrelgur í starfsháttum beggja skólastiga. Ekki hefur þótt tilefni til þess að útbúa sambærilegt skjal fyrir leikskólann þar sem „erfið ágreiningsmál“ heyra til undantekninga í starfi hans. Ef til kæmi væri mögulegt að setja saman nýtt skjal þar sem skoðuð eru raunveruleg tilvik sem upp hafa komið og draga ályktanir af þeim.

Það þarf námskeið fyrir skólaliða um umgengni við börnin, hvað er leyfilegt og hvað ekki, persónuvernd, trúnaður, þagnarskylda o.fl.

Skólaliðum ber að fara eftir ákvæðum grunnskólalaga um þagnarskyldu, trúnað og vernd persónuupplýsinga eins og annað starfsfólk grunnskóla. Taka má undir gagnsemi þess að halda sérstök námskeið fyrir skólaliða í upphafi starfs um starfsskyldur, ábyrgð, hegðun og samskipti við nemendur o.fl. Engin slík ákvæði eru til um sérstök námskeið en sömu reglur gilda um ráðningarbann og gagnvart öðru starfsfólki grunnskóla.

Óskað var eftir því að júlí yrði bætt við skóladagatal fyrir leikskóla.

Það verður gert vegna næsta dagatals 2011-2012.