Málþing um skólamál 2014

Inntak erinda

Hvað ræður námsárangri grunnskólanemenda?

Amalía Björnsdóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Fjallað verður um niðurstöður íslenskra rannsókna í samhengi við kenningar fræðimanna um þætti sem styðja við farsæla og árangursríka skólagöngu barna og ungmenna

Tæpast meðalmennska – Sérkenni íslensks menntakerfis undanfarinn áratug og tækifæri til umbóta á þeim næsta

Almar Miðvík Halldórsson, verkefnisstjóri PISA við Námsmatsstofnun

Á málþingi sambandsins um skólamál árið 2008 lýsti Almar því hvernig niðurstöður langtímarannsókna geta nýst yfirvöldum til umbóta á skólastarfi og stuðlað að því að færa lykilfærni nemenda úr meðalmennsku. Á nokkurra ára fresti færa OECD og IEA heimsbyggðinni fréttir af árangursmati á menntakerfum heimsins með alþjóðlegu samræmdu könnununum PISA, PIRLS og TIMSS. Gagnsemi slíkra gagna felst fyrst og fremst í þeim tækifærum sem þau skapa til frekari greiningar, upplýstrar stefnumótunar, endurtekinna sannprófanna og þekkingarsköpunar sem getur nýst til að bæta menntun ungmenna. Nýleg dæmi sýna stóraukna notkun á slíkri samanburðarnálgun hjá sveitarfélögum og skólum. Í erindinu er rættum hvað þessar upplýsingar segja um undanfarinn áratug og þau tækifæri sem liggja í frekari greiningu áfyrirliggjandi niðurstöðunum fyrir komandi kynslóð grunnskólanemenda.

Innsýn í aðgerðir í Þýskalandi í kjölfar PISA

Björk Ólafsdóttir, matsfræðingur

Í kjölfar hins svonefnda PISA-sjokks í Þýskalandi árið 2001 voru innleiddar fjölmargar aðgerðir til að auka gæði menntunar í landinu. Innleiddir voru menntastaðlar fyrir allt Þýskaland, samræmd stöðupróf, samræmd lokapróf, ytra og innra mat, námsvísar og reglubundnar skýrslur um menntamál. Grundvallarþáttur í hinum nýju áherslum er samþætting menntastaðla og gæðaviðmiða við ytra mat og prófun á hvort markmiðum þeirra sé náð. Að auki innleiddu sambandsríki Þýskalands hvert um sig eigin aðgerðir og má þar nefna t.d. endurskipulagningu námsáætlana, breytingar á skólalögum, eflingu menntunar og uppeldis í leikskólum, innleiðingu heilsdagsskóla, aukinn stuðning við aðflutta og aðgerðir til að auka læsi. 

Aukinn námsárangur

Auður Árný Stefánsdóttir, skrifstofustjóri grunnskólaskrifstofu

Rætt verður um námsárangur almennt, hvað er árangur,  hvaða árangri er æskilegt að ná, hvernig komumst við þangað og hvernig á að mæla hann.  Einnig verður komið inn á það hvað alþjóðakannanir mæla.

Viðsnúningur í frammistöðu nemenda

Framtíðarsýn Reykjanesbæjar, Sandgerðis og Garðs

Gylfi Jón Gylfason fræðslustjóri

Sagt er frá sameiginlegri framtíðarsýn bæjarfélaganna þriggja í skólamálum þar sem áhersla er lögð á að bæta námsárangur. Sérstök áhersla er lögð á læsi, íslensku og stærðfræði. Í erindinu er greint frá þeim aðferðum sem notaðar hafa verið til að bæta námsárangur í sveitarfélögunum og hvernig til hefur tekist.

„Þú átt ekki að tala um árangur í skólastarfi“

Karl Frímannsson, þróunarstjóri Akureyrarkaupstaðar

Viðfangsefni erindisins eru hugleiðingar um tungutak og viðhorf þegar umræðan berst að árangri í skólastarfi. Almennt séð stöndum vel að vígi í öðrum þáttum en námslegum í alþjóðlegum samanburði og því spurning hvort áhersla okkar á námsárangur hafi hörfað um of. Velta má því fyrir sér hvort skólinn bregðist einstaklingum ef lítið er lagt upp úr því að meta stöðu nemenda í ljósi skilgreindra árangursviðmiða eins og Aðalnámskrá grunnskóla kveður á um.

Tengsl málþroska og námsárangurs

Þóra Sæunn Úlfsdóttir, talmeinafræðingur

Málþroski er undirstaða árangurs í námi síðar meir og er mikilvægur fyrir félagslega aðlögun. Ungmenni sem greinast með málþroskaröskun ung að árum eru líklegri til að mennta sig ekki eða vera í vinnu. Það er mannréttindamál að hlúð sé að málþroskanum og því nauðsynlegt að leggja áherslu á málþroska og máltöku allra barna í skólakerfinu öllu.

„Ég er bara að leika mér“

Margrét Pála Ólafsdóttir

Nám barna í leikskóla er bæði óendanlega mikið og mikilvægt þótt svo að námsefni og mælanlegur námsárangur sé ekki efst á blaði þegar rætt er um leikskólabörn.

Skólar og menntun í fremstu röð – Hvernig náum við þangað?

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa mótað sameiginlega framtíðarsýn í skólamálum meðáherslu á nokkra grunnþætti eins og læsi, aðgerðir til að gera kennarastarfið eftirsóknarverðara og nemendamiðað skólastarf. Skúli Helgason var verkefnastjóri þessarar stefnumótunar og er nýkjörinn formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar. Hann fjallar í erindi sínu um megináherslur sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins í skólamálum og hvaða leiðir séu vænlegastar til að ná fram umbótum í skólastarfi á svæðinu.