Hæfnimiðað námsmat – Lærum hvert af öðru

Mennta- og menningarmálaráðuneyti í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands stendur fyrir málþingi þann 30. ágúst nk. um námsmat í nýrri menntastefnu leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Málþingið verður haldið í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og í hátíðarsal Háskólans á Akureyri föstudaginn 30. ágúst, frá kl. 14.00-17.00.

Erindin verða send út á www.gaflari.is og www.netsamfelag.is. Er skólafólk vítt og breitt um landið hvatt til þess að taka höndum saman og skipuleggja vettvang fyrir málstofur í heimabyggð. Þeir sem ekki geta nýtt sér þennan tiltekna dag hafa því möguleika á að sækja efni ráðstefnunnar og hagnýta sér það þegar betur hentar.

Mikilvægt er að þeir sem ætla að nýta sér útsendinguna verði búnir að prófa streymið nokkrum dögum áður því varnir í tölvubúnaði geta komið í veg fyrir að útsending náist. Til að auðvelda upplýsingaflæði eru skipuleggjendur málstofa í heimabyggð hvattir til að tilnefna tengilið og senda upplýsingar á netfangið postur@mrn.is, merkt málþing 30. ágúst.