Hljóðvist og raddvernd í skólum

Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands hófu vorið 2013 samstarf um aðgerðir til að bæta hljóðvist og draga úr hávaða í skólum og vekja athygli á mikilvægi raddverndar og raddbeitingar. Var það gert á grundvelli bókunar með kjarasamningi Félags leikskólakennara og sambandsins frá 2011 og samhljóða bókunar sömu aðila frá árinu 2006. Bókunin er svohljóðandi:

Samningsaðilar eru sammála um að samstarfsnefnd aðila óski eftir því við Vinnueftirlit ríkisins að gerð verði úttekt á vinnuaðstæðum í leikskólum, sérstaklega með tilliti til hljóðvistar og vinnuaðstæðna barna og fullorðinna, þ.m.t. vegna sérkennslu.


Góð hljóðvist ætti að vera hagsmunamál allra er koma að skólastarfi. Hávaði getur haft víðtæk áhrif á heilsu og líðan einstaklinga. Börn eru mun viðkvæmari fyrir hávaða en fullorðnir og minna þarf til að heyrn þeirra skaðist. Ekki er eðlilegt að gera minni kröfur til starfsumhverfis barna en fullorðinna.

Kennarar þurfa að kunna á atvinnutæki sitt, röddina, og vita hvað getur skaðað það. Rödd kennarans þarf að vera áheyrileg og geta gegnt ætlunarverki sínu, nemandinn þarf að hafa gagn af hlustun og umhverfið má ekki spilla þar fyrir. Reyndin er hins vegar sú að alltof oft vinna þessir þrír þættir – rödd, hlustun og umhverfi – illa saman.

Í samspili raddar, hlustunar og umhverfis í skólum er þekkingarleysi ef til vill einn helsti skaðvaldurinn. Er það einlæg von samstarfsaðila að með aukinni fræðslu, umræðu og sameiginlegu átaki muni árangur nást í baráttu við hávaða í námsumhverfi barna og verndun raddheilsu kennara.

Með þetta að leiðarljósi hafa samstarfsaðilar gefið út fræðsluritið Kennsluumhverfið – hlúum að rödd og hlustun , í samstarfi við dr. Valdísi Jónsdóttur, radd- og talmeinafræðing. Um er að ræða handbók fyrir kennara og stjórnendur í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum og rekstraraðila þessara stofnana. Handbókinni er ætlað tvíþætt hlutverk:

  • Að uppfræða kennara, stjórnendur og aðra um rödd, hlustun og umhverfi.
  • Að aðstoða þá sem vilja gera úrbætur á kennsluumhverfinu hvað varðar hljóðvist, hávaða og raddvernd.


Samstarfsaðilar hafa tekið saman lista yfir hagnýt ráð sem eru til þess fallin að draga úr hávaða, en ýmislegt er hægt að gera til að draga úr hávaða með litlum tilkostnaði.

Samstarfsaðilar sendu bréf til kennaramenntunarstofnana þar sem athygli var vakin á mikilvægi raddar, raddbeitingar og raddverndar í grunnnámi kennaranema og í endurmenntun starfandi kennara.

Einnig voru Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi og Vinnueftirlitinu send bréf þar sem hvatt var til samstarfs Vinnueftirlits og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga við mælingar og miðlun úrræða vegna hávaða í leik- og grunnskólum landsins.

„Hugarflugsfundur“ var haldinn í húsakynnum sambandsins í desember 2013 þar sem 20 fulltrúar frá 12 stofnunum og samtökum hittust og ræddu þetta þverfaglega vandamál. Í fundargerð má sjá aðkomu þessara stofnana/samtaka að málaflokknum.

Skýrslur

Fræðsluefni og leiðbeiningar

Lög og reglugerðir

„Heilsuefling í leikskólum Reykjavíkur“ - Átaksverkefni á vegum Reykjavíkurborgar árið 2000

Bréf og ályktanir

Tímarit