Skólavogin

Skólavogin

Skólavogin var í upphafi sett á laggirnar sem tilraunaverkefni af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga í samstarfi við valin sveitarfélög árið 2007. Í desember 2011 var undirritaður samningur við Skólapúlsinn um framkvæmd Skólavogar fyrir þau sveitarfélög sem vilja taka þátt.

Forsagan

Skólavogin byggir á norskri hugmyndafræði (Bedre kommune). Norska verkefnið hefur frá upphafi verið þróað hjá Kommuneforlaget sem er dótturfyrirtæki norska sveitarfélagasambandsins (KS). Norsk sveitarfélög hafa séð af því ávinning og það hefur  náð mikilli útbreiðslu meðal þeirra.

Skólavogin var í upphafi sett á laggirnar sem tilraunaverkefni af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga í samstarfi við valin sveitarfélög árið 2007. Í Skólavogina er safnað þrennskonar upplýsingum: viðhorfum nemenda, foreldra og kennara gagnvart skólastarfinu, námsárangri nemenda og ýmsum lykiltölum er varða rekstur skólans svo sem rekstrarkostnað á hvern nemanda.  Með þessari upplýsingaöflun opnaðist möguleiki á að ná góðri yfirsýn yfir hverju þeir fjármunir sem settir eru í skólastarfið skiluðu. Verkefninu var vel tekið og þeim sveitarfélögum sem tóku þátt í verkefninu fjölgaði hratt. Brátt var svo komið að ljóst var að ef átti að halda verkefninu áfram var nauðsynlegt að koma því í annað og öflugra vistunar- og úrvinnsluumhverfi. Árið 2010 tók verkefnisstjórn Skólavogarinnar því ákvörðun um, að það hefði runnið sitt skeið á enda sem tilraunaverkefni og óhjákvæmilegt væri að finna verkefninu farveg til framtíðar.

Niðurstaðan varð sú að Samband íslenskra sveitarfélaga og Skólapúlsinn ehf. undirrituðu  samstarfssamning um framkvæmd Skólavogar í desember 2011.

Skólapúlsinn ehf. hefur frá árinu 2008 boðið grunnskólum landsins rafræna viðhorfakönnun fyrir nemendur . Þessa könnun hafa grunnskólar nýtt við sitt innra mat.  Árið 2011 hafa ríflega 80 grunnskólar gengið til samstarfs við Skólapúlsinn og ríkir almenn ánægja skólanna með það. Vefkerfi Skólapúlsins veitir skólastjórnendum stöðugan aðgang að nýjum upplýsingum sem aflað er reglulega yfir skólaárið um 20 matsþætti sem tengjast virkni nemenda og líðan þeirra í skólanum og um skóla- og bekkjaranda. Vefkönnunin er lögð fyrir nemendur í 6.-10. bekk  og niðurstöður um stöðu þeirra eru bornar saman við niðurstöður fyrri mælinga í skólanum og við landsmeðaltal. Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um þróun mála í skólanum og stöðu nemenda í skólanum miðað við nemendur í öðrum skólum sem eru þátttakendur í Skólapúlsinum. Skólar fá upplýsingar um stöðu nemenda sinna í myndritum þar sem staðan er greind eftir árgöngum og kyni. Nafnleynd er gætt í hvívetna við framkvæmd og úrvinnslu. Árið 2011 tóku yfir 60% allra nemenda í 6.-10. bekk í landinu þátt í könnuninni. Frá og með skólaárinu 2012/ 2013 býður Skólapúlsinn skólum einnig að taka þátt í foreldrakönnun og kennarakönnun sem veita upplýsingar um viðhorf foreldra til náms barnanna og kennslu og viðhorf kennara til starfsins og skólans.

Framkvæmd verkefnisins

Samkvæmt samningnum sér Skólapúlsinn ehf. um framkvæmd og úrvinnslu Skólavogarinnar. Vefkerfi Skólapúlsins hýsir bæði verkefni Skólapúlsins og Skólavogarinnar. Þátttaka í Skólavog felur ekki í sér sjálfstæðar viðhorfakannanir þar sem niðurstöður úr Skólapúlsinum nýtast inn í Skólavogina. Samningsaðilar telja samnýtingu niðurstaðna mikinn kost þar sem hún kemur í veg fyrir tvíverknað og aukið álag á skólastarf.

Þátttaka í Skólapúlsinum er  ekki forsenda þess að taka þátt í Skólavoginni. Skólar geta einnig valið að taka þátt í einni, tveimur eða öllum þremur könnunum Skólapúlsins. Fyrir skóla sveitarfélagsins sem taka þátt í könnunum Skólapúlsins  eru niðurstöður um stöðu nemenda og viðhorf foreldra og kennara birtar í Skólavoginni í samhengi við námsárangur samkvæmt samræmdum prófum og lykiltölur um rekstur skólanna.

Markmiðið er að lykiltalnahlutinn verði sóttur miðlægt eins og kostur er. Í því samhengi má nefna Upplýsingaveitu sveitarfélaga sem áætlað er að verði tekin í gagnið árið 2012. Með tilkomu hennar er mögulegt að greina kostnað og umfang málaflokka enn frekar en hægt hefur verið til þessa. Með meiri sundurliðun upplýsinga verður kleift að greina hvernig ”annar rekstrarkostnaður” deilist á liði eins og orku, akstur, leigugreiðslur (t.a.m innri húsaleigu), aðkeyptrar þjónustu og fleiri þátta. Upplýsingar um námsárangur samkvæmt samræmdum könnunarprófum verða sóttar til Námsmatsstofnunar. 

Samkvæmt samningnum skal setja á fót verkefnisstjórn sem mótar áherslur m.t.t. lykiltalna. Í verkefnisstjórn sitja:

 • Almar M. Halldórsson, Skólapúlsinn ehf.;
 • Hildur Björk Svavarsdóttir deildarstjóri, Reykjavíkurborg;
 • Helga Guðmundsdóttir fræðslufulltrúi, Fljótsdalshérað; og
 • Björk Ólafsdóttir sérfræðingur, Samband íslenskra sveitarfélaga.
 • Valgerður Ágústdóttir, sérfræðingur á hag- og upplýsingasviði sambandsins, er starfsmaður verkefnisstjórnar.

Ávinningur sveitarfélaga af þátttöku í Skólavog

Þátttaka í Skólavoginni og Skólapúlsinum veitir stjórnendum sveitarfélaga meiri yfirsýn yfir skólamál sveitarfélagsins og upplýsingar um viðhorf foreldra og kennara, viðhorf og líðan nemenda ásamt upplýsingum um rekstrarlega þætti skólastarfsins og námsárangur samkvæmt samræmdum prófum. Þá verður þeim fært að bera saman lykiltölur um skólahald milli skóla innan sveitarfélagsins sem og við skóla í öðrum sveitarfélögum undir nafnleynd. Samanburðurinn  er þó ekki eingöngu milli skóla, heldur einnig yfir tíma. Þannig má sjá þróun mála í grunnskólum yfir ákveðið tímabil. Til dæmis má bera saman rekstrarkostnað á hvern nemanda í ákveðnum skóla við aðra þar sem þættir eins og innri húsaleiga og skólaakstur eru einangraðir frá kostnaðinum. Annað dæmi er fjöldi nemenda á hvert stöðugildi starfsfólks við kennslu í hverjum skóla samanborið við aðra skóla. Fleiri lykiltölur eru t.d. menntunarstig starfsfólks, fjöldi sérkennslunemenda og móðurmál nemenda.  Þá verður hægt að keyra saman lykiltölur svo sem rekstrarkostnað við skóla og árangur nemenda eða líðan þeirra og einnig viðhorf foreldra og kennara. Þannig má fá svar við því hvort að betri árangur nemenda þurfi að kosta meira. Þá skiptir miklu að upplýsingarnar eru aðgengilegar á bæði tölulegu formi og í myndritum.

Það er stefna Skólapúlsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga að hliðstæð kortlagning verði hönnuð fyrir leikskóla.

Niðurstöður úr Skólavog gefa ekki eingöngu góða yfirsýn yfir rekstur og nýtingu fjármagns, heldur gefa þær einnig aukna innsýn inn í skólabraginn. Niðurstöðurnar geta að auki þjónað mikilvægu hlutverki við úthlutun fjármagns til skóla og mat á nýtingu úthlutaðs fjármagns með markvissum samanburði við aðra skóla og/eða önnur sveitarfélög. Þá nýtist Skólavogin við að koma til móts við lögbundnar kröfur um mat og eftirlit með skólum.

Hvað kostar að taka þátt?

Skólapúlsinn ehf. innheimtir áskriftargjöld af sveitarfélögum og er áskriftargjöldum ætlað að standa straum af kostnaði við þróun, rekstur og uppbyggingu Skólavogarinnar. Það er aðskilið frá gjaldi grunnskóla fyrir Skólapúlsinn.

Gjald fyrir Skólavogina

Árgjald til sveitarfélags fyrir Skólavog miðast við stærð þess skv. þessari töflu sem gildir við undirritun samnings:

 1. Sveitarfélög með >10.000 íbúa: 920 þús.kr.
 2. Sveitarfélög með 5.001-10.000 íbúa: 740 þús.kr.
 3. Sveitarfélög með 2.001-5.000 íbúa: 430 þús.kr.
 4. Sveitarfélög með 1.001-2.000 íbúa: 320 þús.kr.
 5. Sveitarfélög með 501-1.000 íbúa: 220 þús.kr.
 6. Sveitarfélög með <=500 íbúa: 140 þús.kr.

Gjald fyrir Skólapúlsinn

Greitt er árgjald fyrir reglulegar kannanir í hverjum grunnskóla fyrir sig. Fyrir hverja tegund könnunar, þ.e. nemendakönnun, foreldrakönnun og kennarakönnun, er árgjaldið 34 þús.kr. fyrir skóla með 120 eða færri nemendur í 6.-10. bekk og 53 þ.kr. fyrir skóla með fleiri en 120 nemendur í 6.-10. bekk. Innifalin er ráðgjöf til skóla um framkvæmd könnunarinnar, túlkun niðurstaðna fyrir skólann og flutningur á niðurstöðum úr Skólapúlsinum í Skólavog sveitarfélags.

Óski sveitarfélag eftir frekari úrvinnslu á gögnum er um það samið sérstaklega við Skólapúlsinn ehf., hvort sem vinnslan er af tæknilegum eða faglegum toga. Sveitarfélag á þó alltaf rétt á því að fá afrit af öllum hrágögnum sem frá því koma til frekari greiningar enda sé nafn Skólapúlsins og Skólavogar skýrlega undanskilið við birtingu þeirra eða aðra miðlun.

Skráning og frekari upplýsingar

Einfalt er að sækja um aðild að Skólavoginni á heimasíðu kerfisins, www.skolavogin.is og er þar að finna nánari upplýsingar. Sótt er um aðild fyrir skóla að Skólapúlsinum á heimasíðunni  www.skolapulsinn.is.

Frekari upplýsingar um kerfin veitir Kristján Ketill Stefánsson á kristjan@skolapulsinn.is eða í síma 499-0690. Upplýsingar veitir einnig Valgerður Ágústsdóttir sérfræðingur á hag- og upplýsingasviði sambandsins valgerdur@samband.is.

Samningur Sambands íslenskra sveitarfélaga og Skólapúlsins um Skólavog.

Valgerður Ágústsdóttir hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er starfsmaður verkefnisstjórnar og veitir hún frekari upplýsingar um verkefnið.