Sóknaráætlanir landshluta

Sóknaráætlanir landshluta eru stefnumótandi áætlanir sem taka til starfssvæða landshlutasamtaka sveitarfélaga. Í þeim koma fram stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Í sóknaráætlunum landshluta er mælt fyrir um svæðisbundnar áherslur sem taka mið af meginmarkmiðum byggðaáætlunar, landsskipulagsstefnu, skipulagsáætlunum, menningarstefnu og, eftir atvikum, annarri opinberri stefnumótun. Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál styður landshlutasamtök sveitarfélaga við gerð sóknaráætlana og samninga milli landshlutasamtaka sveitarfélaga og ráðuneyta. Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, á sæti í stýrihópnum fyrir hönd sambandsins.

Sóknaráætlanir eru unnar í samvinnu við samráðsvettvang viðkomandi landshluta sem er samstarfsvettvangur eftirtalinna aðila: sveitarfélaga, ríkisstofnana, atvinnulífs, menningarlífs, fræðasamfélags, annarra haghafa í hverjum landshluta. Byggðastofnun og stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál bera ábyrgð á mati á framvindu sóknaráætlana og eftirliti með fjárreiðum þeirra.

Samningur ríkisins og landshlutasamtaka

Þann 12. nóvember 2019 undirrituðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og fulltrúar landshlutasamtaka sveitarfélaga samninga um sóknaráætlanir fyrir hvern landshluta. Samningarnir gilda til fimm ára, eða fyrir tímabilið 2020-2024.

Sóknaráætlun landshluta

Sóknaráætlanir liggja fyrir í öllum átta landshlutunum og gilda þær til ársins 2024. Sóknaráætlanirnar fela í sér stöðumat, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir og voru þær unnar í víðtæku samráði heimamanna. Áhersluverkefni og verkefni styrkt af uppbyggingarsjóðum taka mið af áherslum sóknaráætlunar í hverjum landshluta.