Frá móttöku til aðlögunar

Hlutverk sveitarfélaga og svæða í flóttamanna- og innflytjendamálum

Á vorþingi Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins 2017 var samþykkt skýrsla um hlutverk sveitarfélaga og svæða í flóttamanna- og innflytjendamálum , með ábendingum og tillögum.  Í skýrslunni er farið yfir hlutverk sveitarfélaga og svæða í Evrópuráðslöndunum sem standa frammi fyrir nýjum áskorunum vegna vaxandi fjölda flóttamanna- og innflytjenda á undanförnum árum. Lögð er áhersla á að þar sem ESB og Evrópuríki hafi ekki brugðist á skýran og heildstæðan hátt við aðstæðum, hafi sveitarfélög og svæði þurft að takast á við neyðaraðstæður og láta innflytjendum og flóttamönnum í té þjónustu og vernd af takmörkuðum efnum og án nægilegs stuðnings. Þingið hvatti öll stjórnsýslustig til að vinna betur saman og samhæfa aðgerðir sínar til að koma á móttökustefnu sem tryggir mannréttindi allra flóttamanna og innflytjenda, hver sem lagaleg staða þeirra er, og greiðir fyrir langtíma aðlögun þeirra með aðgerðum strax eftir komu. Sveitarfélögin séu í lykilstöðu til að takast á við úrlausnarefni sem tengjast flóttamönnum. Þingið beindi þeim tilmælum til ríkja Evrópuráðsins að vinna gegn stjórnsýsluhindrunum sem hælisleitendur finna fyrir, að þróa skýran lagaramma og tryggja sveitarfélögum og svæðum fjárhagslegan stuðning. Gefa þurfa hælisleitendum tækifæri til að vinna meðan á meðferð umsókna þeirra stendur til þess að aðlögun geti hafist sem fyrst.

Þingið hvatti sveitarfélög og svæði til að bjóða upp á fjölmenningarlega kennslu til að móttökusamfélagið öðlist meiri þekkingu og vitund um þá auðlegð sem býr í innflytjendum vegna bakgrunns þeirra og þess sem þeir geta lagt af mörkum til nýs heimalands. Enn fremur sé mikilvægt að bjóða innflytjendum upp á lýðræðiskennslu til að auka skilning þeirra á félagslegum og borgaralegum gildum móttökusamfélagsins. Það hvetur sveitarfélög og svæði til að byggja upp þekkingu meðal kjörinna fulltrúa og starfsfólks og koma á markvissu móttöku- og stuðningskerfi fyrir innflytjendur. Aðgerðir þurfi bæði að taka mið af hagsmunum upprunalegra íbúa og innflytjenda. Sveitarfélög og svæði eru hvött til að hagnýta sér verkfærakistu þingsins um hvernig skipuleggja megi samtal á milli menningar- og trúarhópa sem hefur verið þýdd á íslensku. Þau eru hvött til að vinna á hindrunum fyrir aðgengi flóttamanna að vinnumarkaðinum með því að gera aðlögunaráætlanir fyrir þá og greiða fyrir því að þeir geti unnið að samfélagsþjónustuverkefnum fyrst eftir komuna meðan þeir eru í millibilsástandi. Þannig geti þeir kynnst vinnuumhverfi og orðið sýnilegir í nýju samfélagi á jákvæðan hátt. Sveitarfélög og svæði eru hvött til að bjóða upp á húsnæðisúrræði sem stuðla að blöndun hópa og jákvæðum samskiptum á milli flóttamanna og upprunasamfélagsins. Koma þarf í veg fyrir að „Flóttamannagettó“ verði til. Sveitarfélög og svæði eru hvött til að skoða þann stuðning sem Þróunarbanki Evrópu  getur veitt til verkefna.

Undir þessum dagskrárlið flutti yfirlýsingu Tomas Bocek, sem er sérstakur erindreki framkvæmdastjóra Evrópuráðsins í málefnum innflytjenda og flóttamanna. Hlutverk hans er að  kynna sér stöðu flóttamanna og innflytjenda í löndum Evrópuráðsins og miðla upplýsingum til yfirstjórnar Evrópuráðsins. Hann tilgreindi fjögur lykilatriði úr skýrslum sínum: Skoðanamyndunar-hlutverk bæjarstjóra, mikilvægi samvinnu milli sveitarfélaga og ríkisvaldsins, leitina að raunhæfum lausnum sem fela í sér nýsköpun og mikilvægt framlag sjálfboðaliða.