Um starfsmatskerfið
Ný heimasíða starfsmatsins er starfsmat.is
Hvað er starfsmat?
Starfsmati er ætlað að leggja kerfisbundið mat á innihald og einkenni starfa. Með starfsmati skapast þannig hlutlæg viðmið sem hægt er að nýta við uppröðun á mismunandi störfum eftir innihaldi þeirra. Með því að raða störfum eftir niðurstöðum starfsmats eru forsendur launaákvarðana gerðar sýnilegri og rökstuðningur þeirra verður skýrari.
Mikilvægt er að hafa í huga að starfsmat metur aðeins störf en ekki einstaklingsbundna hæfni starfsmanna. Með öðrum orðum þá er lagt mat á það hvaða kröfur eru gerðar til starfsmanns í tilteknu starfi. Ekki er lagt mat á einstaklingsbundna hæfni jafnvel þó umfram hæfni eða hæfileikar hafi bein eða óbein áhrif á frammistöðu í starfi. Einstaklingsbundin hæfni er til dæmis mæld með frammistöðu- eða hæfnismati.
Starfsmat þarf að ná yfir alla þætti sem einkenna þau störf sem matinu er ætlað að meta. Þá þarf starfsmat einnig að vera réttmætt og áreiðanlegt en í því felst að matið mæli í raun það sem því er ætlað að mæla og gefi sömu/sambærilega niðurstöðu þegar sömu/sambærileg störf eru metin.
Uppbygging starsmatskerfisins SAMSTARF
Starfsmatinu er skipt niður í fjóra meginþætti og þrettán undirþætti:
I. Hæfni, vægi 38,4%
1. Þekking og reynsla - 8 þrep (
Knowledge)
2. Hugræn færni - 6 þrep (
Mental Skills)
3. Samskipta- og tjáskiptafærni - 6 þrep (
Interpersonal Skills)
4. Líkamleg færni - 5 þrep (
Physical Skills)
II. Álag, vægi 25,4%
5. Frumkvæði og sjálfstæði - 8 þrep (
Initiative and Independence)
6. Líkamlegt álag - 5 þrep (
Physical Demands)
7. Hugrænar kröfur - 5 þrep (
Mental Demands)
8. Tilfinningalegt álag - 5 þrep (
Emotional Demands)
III. Ábyrgð, vægi 31,2%
9. Ábyrgð á fólki - 6 þrep (
Responsibility for People)
10. Ábyrgð á verkstjórn, leiðsögn o.fl. - 6 þrep (
Responsibility for Supervision)
11. Ábyrgð á fjármálum - 6 þrep (
Responsibility for Financial Resources)
12. Ábyrgð á búnaði, tækjum og mannvirkjum - 6 þrep (
Responsibility for Physical Resources)
IV. Vinnuaðstæður, vægi 5%
13. Vinnuaðstæður - 5 þrep ( Working conditions)
Hverjum undirþætti er skipt niður í 5 til 8 þrep en alls eru 77 þrep í kerfinu. Þrepin eru notuð til þess að aðgreina mismunandi kröfur í starfi á hverjum þætti fyrir sig. Eftir því sem kröfur í starfi aukast þeim hærra þrep er gefið á tilteknum þætti. Hvert þrep gefur síðan tiltekinn stigafjölda og samanlögð stig á öllum þáttum gefa endanlega stigatölu fyrir tiltekið starf.
Stigadreifing kerfisins er 163 til 1000 stig. Ef stig fyrir neðsta þrep á öllum þáttum er lögð saman eru það 163 stig og ef stig á öllum efstu þrepum kerfisins eru lögð saman eru það 1000 stig. Ekkert starf er á neðsta eða efsta þrepi í öllum þáttum. Starfsmatsniðurstöður dreifast jafnan á bilinu 250 til 750 stig.
Starfsmatskerfið inniheldur alls 677 spurningar. Fjöldi mögulegra svarmöguleika er á bilinu 2 til 8, mismunandi eftir eðli spurninga.
Fræðslubæklingur um starfsmat
Þegar starfsmatið var innleitt var gefinn út
fræðslubæklingur um starfsmatið
í október 2003 (pdf-skjal).