9. Þáttur: Ábyrgð á fólki

Í þessum þætti er metið hvort í starfinu felist ábyrgð á fólki. Metin er sú ábyrgð sem starfsmaður ber á einstaklingum eða hópum (almenningi, þjónustuþegum og / eða viðskiptavinum).

Áhersla er lögð á að meta eðli og umfang þeirra BEINU áhrifa sem starfið hefur á velferð einstaklinga eða hópa, þ.m.t. kröfur sem starfið gerir um trúnað vegna líkamlegra, andlegra, félagslegra, efnahagslegra og umhverfislegra þátta er varða velferð fólks, þ.m.t. heilsu og öryggi þeirra.

Á þessa ábyrgð reynir t.d. þegar veita þarf fólki persónulega þjónustu, ráðgjöf, leiðbeiningar eða annars konar aðstoð, innleiða eða knýja fram nýjar reglugerðir eða þróa og innleiða ýmsa þjónustu eða sinna eftirliti. Auk þessa er metin ábyrgð starfsmanns í stefnumótunarvinnu, ráðgjöf og / eða rannsóknum sem snúa að líkamlegri, andlegri, félagslegri, fjárhagslegri eða umhverfislegri velferð fólks.