Upplýsingamiðlun

Ákvörðun um að hefja endurskoðun á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga var tekin á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga sem haldinn var 16. febrúar 2007. Þegar í upphafi var ákveðið að einbeita sér að velferðaþjónustunni, einkum málefnum fatlaðra og öldrunarmálum. Málefni heilsugæslu og framhaldskóla hafa einnig komið til umræðu sem möguleg viðfangsefni yfirfærslu til framtíðar litið. 

Fram að síðustu áramótum var yfirfærslu verkefna á sviði velferðarþjónustu stjórnað sameiginlega af verkefnisstjórn sem skipuð var fulltrúum bæði ríkis og sveitarfélaga. Á grundvelli nýrra laga hefur verið skipuð samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks sem ætlað er það hlutverk að vera velferðarráðherra og sveitarfélögum til ráðgjafar um málefni fatlaðs fólks, hafa umsjón með framkvæmd á yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk til sveitarfélaganna, gera tillögur um breytingar á tilhögun yfirfærslunnar eftir því sem ástæða er til, stýra endurmati yfirfærslunnar og fjalla um vafamál og álitaefni sem upp kunna að koma. Ráðherra er heimilt að fela nefndinni frekari verkefni í tengslum við fyrirfærslu þjónustunnar. Nánar er fjallað um hlutverk samráðsnefndarinnar í 12. grein heildarsamkomulags ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlað fólk frá 23. nóvember 2010.