Starfsmannamál

Mannauður  

Sú starfsemi sem færist frá ríki til sveitarfélaga felst fyrst og fremst í þjónustu við fatlað fólk. Um áramótin munu um 1400 ríkisstarfsmenn fá nýja vinnuveitendur hjá viðkomandi sveitarfélögum. Starfsmennirnir búa yfir sérhæfðri þekkingu og reynslu. Þeir verða dýrmæt viðbót við þann öfluga starfsmannahóp sem nú þegar sinnir velferðarþjónustu sveitarfélaga.

Það er krefjandi verkefni fyrir sveitarfélögin að taka á móti svo stórum starfsmannahópi og mikilvægt er að vel sé vandað til verka. Þegar ákvörðun liggur fyrir um innra skipulag hvers þjónustusvæðis með tilliti til starfsmannahalds þarf að kynna það svo fljótt sem verða má fyrir hlutaðeigandi starfsmönnum þannig að þeim verði ljóst hver verði þeirra nýi vinnuveitandi. Þar sem starfseiningar verða sameinaðar er jafnframt mikilvægt að gleyma ekki þeim starfsmönnum sem fyrir eru. Upplýsa þarf þá með sama hætti og hvetja til að taka vel á móti nýjum samstarfsmönnum. Æskilegt er að gerð sé áætlun um hvernig staðið verði að málum gagnvart þeim starfmönnum sem verkefnaflutningurinn snertir og hvernig þeim er fylgt í gegnum ferlið.

Til að tryggja megi farsæla framkvæmd yfirfærslunnar er áríðandi að allir þeir aðilar sem að henni koma vinni vel saman. Í þessu sambandi gegna m.a. sveitarfélögin og svæðisskrifstofurnar mikilvægu hlutverki varðandi samráð og upplýsingastreymi.

Vettvangur um kjaraleg álitaefni er hjá samstarfsnefndum sem starfa samkvæmt kjarasamningum. Fyrirsvar í kringum þessar nefndir er hjá kjarasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga en mannauðsskrifstofa Reykjavíkurborgar sér um fyrirsvarið vegna kjarasamninga borgarinnar. Til þessara starfseininga er jafnframt hægt að leita með fyrirspurnir um hagnýt atriði varðandi starfsmannaþáttinn í tengslum við yfirfærsluna. 

Efni tengt starfsmannamálum:

Fræðslubæklingur um starfsumhverfi starfsmanna sveitarfélaga, útgefinn í október 2010.

Leiðbeiningar um starfsmannamál.  Samantekt þessi hefur að geyma upplýsingar um ýmis lögfræðileg og hagnýt atriði um starfsmannamál sem kjarasvið Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman vegna yfirfærslu málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga í ársbyrjun 2011.