Staða málaflokksins við yfirfærsluna

Þegar unnið var að yfirfærslu á málefnum fatlaðra á árabilinu 1997 – 2001 var unnið margvíslegt efni um forsendur yfirfærslunnar. Ýmislegt af þessu efni var gefið út, m.a. skýrsla á vegum félagsmálaráðuneytisins með ítarlegri greiningu á kostnaði. Ennfremur var gerð úttekt á nokkrum þáttum í reynslusveitarfélagaverkefninu.

Þrátt fyrir traustan undirbúning náðist ekki að semja um yfirfærsluna á þessum tíma og var ástæðan einkum sú að ríkisvaldið reyndist ekki tilbúið til þess að hafa inni í forsendum samninga að endurskoða bæri fjárhagslega þætti að teknu tilliti til breytinga sem yrðu á tímabilinu eftir yfirfærslu.

Þegar þráðurinn var tekinn upp að nýju árið 2007 var það útgangspunkturinn að á þriggja til fjögurra ára tímabili eftir yfirfærsluna færi fram fjárhagslegt og faglegt mat á árangri. Ef í ljós kæmi veruleg röskun á forsendum tilfærslunnar skyldu teknar upp viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um nauðsynlega leiðréttingu (sjá 11. gr. heildarsamkomulags). Var frá því gengið að við mat á fjárhagslegum þáttum skal meðal annars horft til ákveðinna aðferða við kostnaðarmat sem lýst er nánar í viðauka við samkomulagið. Sveitarfélög ættu jafnframt að halda kostnaði við þjónustu við fatlaða aðgreindum, þannig að unnt verði að leggja mat á kostnaðarþróun þjónustunnar.

Á þessum grundvelli  hefur mikil vinna farið í að greina stöðu málaflokksins er til yfirfærslunnar kemur og þeirri vinnu lýst að nokkru marki í viðaukum með heildarsamkomulaginu dags. 23. nóvember 2010. Lykilatriði hér að fram fari samræmt þjónustumat á landsvísu fyrir þá sem eru notendur þjónustu við yfirfærsluna eða eru á biðlista eftir þjónustu.

Þá liggja einnig fyrir upplýsingar um stöðu málaflokksins í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá ágúst 2010. Mjög margt af þeirri vinnu sem unnið er að vegna yfirfærslunnar svarar með beinum hætti ábendingum sem fram koma í þessari skýrslu, m.a. varðandi samræmt þjónustumat og er vikið að því í greinargerð ráðuneytis um skýrsluna.

Í skýrslunni leggur Ríkisendurskoðun áherslu á að félags‐ og tryggingamálaráðuneytið gangist fyrir mótun formlegrar heildarstefnu um þjónustu við fatlaða þar sem fram komi skýr forgangsröðun, markviss aðgerðaáætlun og skilgreindir árangursmælikvarðar. Ráðuneytið fylgi þeirri stefnu síðan eftir gagnvart veitendum þjónustunnar. Vísar Ríkisendurskoðun til þess að fyrir liggi drög að stefnu frá árinu 2006 en bendir á slík stefnudrög þurfi að samþykkja formlega til að stefnan fái það vægi sem nauðsynlegt er.

Samkvæmt frv. til 3. gr. laga um málefna fatlaðra er gert ráð fyrir því að velferðarráðherra beri ábyrgð á opinberri stefnumótun í málefnum fatlaðra og að þessi stefnumótun verði gerð í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, enda verða sveitarfélögin stjórnvöld í málaflokknum eftir yfirfærsluna, og bera þannig ábyrgð á skipulagi, framkvæmd og fjármögnun þjónustu við fólk með fötlun.

Efni tengt því hver staða málaflokksins er við yfirfærsluna og stefnumörkun til framtíðar má sjá á síðunni hér til hægri.