Notendasamningar í málaflokki fatlaðs fólks

„Sambandið skal vinna að því að þróaðir verði notendasamningar og notendastýrð persónuleg aðstoð í nærþjónustu sveitarfélaga sem verði innleidd sem valkostur við önnur þjónustuform, enda liggi fyrir sérstök fjármögnun af hálfu ríkisins vegna þessarar þróunar.“

Í stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga 2014 - 2018 segir í lið 3.3.21:

„Sambandið skal vinna að því að þróaðir verði notendasamningar og notendastýrð persónuleg aðstoð í nærþjónustu sveitarfélaga sem verði innleidd sem valkostur við önnur þjónustuform, enda liggi fyrir sérstök fjármögnun af hálfu ríkisins vegna þessarar þróunar.“

Notendasamningar eru gerðir beint milli notenda í málaflokki fatlaðs fólks og viðkomandi sveitarfélags/þjónustusvæðis. Að samningur sé um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) felur í sér að fatlað fólk velur sér það aðstoðarfólk sem það kýs sjálft. Aðstoðarfólk vinnur samkvæmt starfslýsingu sem notandi semur og samræmist lífsstíl hans og kröfum. Notendastýrð persónuleg aðstoð felur í sér mánaðarlegar greiðslur til notanda eða umsýsluaðila sem hann hefur valið og er þeim ætlað að mæta launum aðstoðarmanns/manna, kostnaði og umsýslukostnaði.

Um notendastýrða persónulega aðstoð er gerður einstaklingssamningur, þ.e. samningur á milli notanda og ábyrgðaraðila þjónustu (sveitarfélag / þjónustusvæði) þar sem fram kemur tímafjöldi í þjónustu og fjárhæð greiðslna. Í samningnum kemur fram hvort notandi ætli að leita til umsýsluaðila eða annast skipulag þjónustunnar sjálfur.

Í mörgum tilvikum er um að ræða að beingreiðslusamningi sé breytt í NPA-samning. Slíkir beingreiðslusamningar eru hliðstæðir NPA-samningum að því leyti að þeir ákvarða tilteknar greiðslur sem notandi ráðstafar til kaupa á þjónustu. Beingreiðslusamningar eru hins vegar ekki bundnir tilteknum tímafjölda í þjónustu og byggjast ekki í jafnríkum mæli og NPA-samningar á því hversu mikla þjónustu notandinn sjálfur telur sig þurfa.

Innleiðing NPA hérlendis byggir á ákvæði til bráðabirgða í lögum um málefni fatlaðs fólks. Um er að ræða reynsluverkefni sem lýtur sérstakri verkefnisstjórn. Þátttaka í reynsluverkefninu af hálfu sveitarfélaga / þjónustusvæða er valkvæð, enda telst NPA ekki til lögbundinnar þjónustu. Reynsluverkefnið hefur verið skilgreint til loka árs 2016 og mun umrædd verkefnisstjórn skila niðurstöðu um framkvæmdina.

Enda þótt framkvæmd reynsluverkefnisins hafi ekki verið hluti af samkomulagi um endurmat á yfirfærslunni, liggur engu að síður fyrir að innleiðing NPA hefur haft margvísleg áhrif á þá þjónustu sem færðist frá ríki til sveitarfélaga. Unnið er að því að greina þessi áhrif en þau munu væntanlega koma til skoðunar þegar tekin verður afstaða til þess hvort NPA-verði áfram valkvætt verkefni sveitarfélaga eða lögfest sem skylda af þeirra hálfu.

Í samræmi við stefnumörkun 2014 – 2018 styður sambandið að gerðir séu notendasamningar og notendastýrð persónuleg aðstoð innleidd þar sem það úrræði hentar og sveitarfélög/þjónustusvæði velja að fara þá leið. Sambandið telur því að NPA eigi áfram að vera valkostur og að horft verði til þess hvernig þjónustuformið hefur verið innleitt í Noregi á umliðnum 15 árum. Jafnframt leggur sambandið ríka áherslu á að öll skref sem tekin eru í innleiðingunni séu kostnaðarmetin.

Efni á vef sambandsins um notendasamninga og NPA: