Ferli yfirfærslunnar 2011-2014

Þótt yfirfærsla málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga muni formlega eiga sér stað þann 1. janúar 2011, þá felur verkefnið í sér ferli til nokkurra ára með skilgreindum verkþáttum. Segja má að fyrsti verkþátturinn hafi verið  viljayfirlýsing ríkis og sveitarfélaga frá 13. mars 2009, þar sem forsendur verkefnisins voru ákveðnar.

Auk þeirra framkvæmdaatriða og hagnýtu álitaefna sem yfirfærslan kallar á að unnið sé að á hverjum tíma, hvílir ferlið á þremur meginstoðum og skilgreindum verkþáttum:

1. Faglegt og fjárhagslegt mat á árangri yfirfærslunnar 

Um þessi atriði er fjallað í viðaukum við heildarsamkomulag.

 2. Stefnumótun

Samkvæmt frv. til 3. gr. laga um málefni fatlaðra mun velferðarráðherra bera ábyrgð á opinberri stefnumótun í málaflokknum og skal sú stefnumótun gerð í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Unnið verður að gerð stefnunnar á árinu 2011 og áfram.

 3. Starf samráðsnefndar og endurskoðun innan tímabilsins

Samkvæmt frv. til bráðabirgðaákvæðis (VI) með lögum um málefni fatlaðra mun velferðarráðherra skipa sérstaka samráðsnefnd um málefni fólks með fötlun sem ætlað er að umsjón með framkvæmd á yfirfærslu þjónustu við fólk með fötlun ásamt því að gera tillögur um breytingar á tilhögun yfirfærslunnar eftir því sem ástæða þykir til. Gert er ráð fyrir að nefndin starfi fram til þess að faglegu og fjárhagslegu mati á yfirfærslu málaflokksins (sbr. lið 1 hér að ofan) verður lokið eða til loka árs 2014. Þá verður nefndin sveitarfélögum og ráðherra til ráðgjafar í málaflokknum.

Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir þrjá fulltrúa í nefndina og fjármálaráðherra, innanríkisráðherra, Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands tilnefna einn fulltrúa hver aðili. Velferðarráðherra skipar einn fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður samráðsnefndarinnar.

Efni tengt ferli yfirfærslunnar má sjá hér til hægri.