Úrskurðarnefnd velferðarmála

Stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru innan félagsþjónustu sveitarfélaga eru kæranlegar til úrskurðarnefndar velferðarmála (áður úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála). Um nefndina gilda lög nr. 85/2015 en nánari upplýsingar er jafnframt að finna á heimasíðu ráðuneytisins. Þar er einnig hægt að nálgast kærueyðublað sem er unnt er að benda kærendum á að styðjast við. Aðsetur nefndarinnar er í Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík.

Stjórnendum í almennri félagsþjónustu, málaflokki fatlaðs fólks, barnavernd og vegna húsaleigubóta er skylt að veita viðtakanda stjórnvaldsákvörðunar réttar leiðbeiningar um það að beina megi kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála telji málsaðili að ekki hafi verið staðið rétt að ákvörðun. Ennfremur skal veita upplýsingar um kærufrest sem er þrír mánuðir frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.

Slíkar kæruleiðbeiningar skal alltaf veita þegar ákvörðun er tekin um formleg réttindi eða skyldur notenda. Leiki vafi á því hvort um slíka ákvörðun sé að ræða (þ.e. stjórnvaldsákvörðun) er almennt vissara að veita kæruleiðbeiningarnar en sleppa því.

Kæruleiðbeiningar eru yfirleitt veittar með stöðluðum texta í bréfum og tilkynningum vegna þeirra ákvarðana sem teknar eru. Uppfæra þennan staðlaða texta ef breytingar verða á þeim atriðum sem fram koma í textanum. Jafnframt er mikilvægt að allar reglur sem útgefnar eru af félagsþjónustunni séu reglulega yfirfarnar m.a. með tilliti til eftirfarandi atriða:  

  • Að reglurnar vísi til þess að kæruleið sé til úrskurðarnefndar velferðarmála.
  • Að kærufrestur sé þrír mánuðir frá því að aðila máls (viðtakanda) var tilkynnt um ákvörðun.
  • Að fjárhæðir í reglum séu uppfærðar.
  • Að breyta tímafjölda, skiptafjölda eða öðrum slíkum atriðum í þjónustunni hafi viðmið breyst.
  • Að reglurnar kveði á um farveg fyrir endurupptöku mála, t.d. með erindi til félagsmálanefndar / velferðarráðs.
  • Annað sem þafnast endurskoðunar við.

Endurskoðaðar reglur þurfa almennt að fá umfjöllun og afgreiðslu í sveitarstjórn. Til að rekja megi hvaða reglur gildi á hverjum tíma er mælst til þess að hlutaðeigandi sveitarfélag / þjónustusvæði láti birta endurskoðaðar reglur í B-deild Stjórnartíðinda.