Málefni barna og fjölskyldna

Barnaverndarmál

Sveitarfélögin gegna mikilvægu hlutverki í barnaverndarmálum. Í barnaverndarlögum nr. 80/2002 segir að á vegum sveitarfélaga skuli starfa barnaverndarnefndir sem gegni eftirfarandi hlutverki:

Eftirlit. Barnaverndarnefndir skulu kanna aðbúnað, hátterni og uppeldisskilyrði barna og meta sem fyrst þarfir þeirra sem ætla má að búi við óviðunandi aðstæður, sæti illri meðferð eða eigi í alvarlegum félagslegum erfiðleikum.

Úrræði. Barnaverndarnefndir skulu beita þeim úrræðum samkvæmt lögum þessum til verndar börnum sem best eiga við hverju sinni og heppilegust þykja til að tryggja hagsmuni og velferð þeirra.

Önnur verkefni. Barnaverndarnefndir hafa með höndum önnur þau verkefni sem þeim eru falin í þessum lögum og öðrum lögum. Heimilt er sveitarstjórn að fela barnaverndarnefndum frekari verkefni sem varða aðstæður barna og ungmenna í umdæmi hennar.

Fámennari sveitarfélög skulu hafa samvinnu við önnur sveitarfélög um kosningu barnaverndarnefndar. Samanlagður íbúafjöldi sveitarfélaga að baki hverri barnaverndarnefnd skal ekki vera undir 1.500, samkvæmt barnaverndarlögum.